Ísland fer niður um eitt sæti á heimslista samtakanna Blaðamenn án landamæra og vermir nú fimmtánda sætið. Formaður Blaðamannafélags Íslands telur niðurstöðurnar ekki trúverðugar. Samtökin gefa út á hverju ári lista yfir 180 ríki heims og flokka eftir frelsi fjölmiðla í hverju landi. Norrænu löndin verma fjögur efstu sætin, Noregur í því fyrsta.

Í skýrslu samtakanna er tekið fram að þrátt fyrir að á Íslandi ríki „algjört málfrelsi“ samkvæmt stjórnarskránni. Þrátt fyrir það hafi staða blaðamanna versnað síðan 2012 vegna súrnandi sambands þeirra við stjórnmálamenn.

„Ef það er staðreynd að við erum að lækka út af því þá ættum við í raun að vera að hækka,“ segir Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands. Hann segir að þrátt fyrir að tíu sæti séu á milli Íslands og hinna Norðurlandanna erum við alveg á pari við þau hvað varðar fjölmiðlafrelsi.

Alma Ómarsdóttir, formaður Félags fréttamanna, tekur í svipaðan streng. „Maður veltir aðeins fyrir sér á hverju þeir byggja þetta. Það hefur gengið upp og niður á undanförnum árum, árið í ár er ekkert endilega eitthvað verra en í fyrra.“

Hún segir að síðustu ár hafi íslenskir fjölmiðlar fjallað ítarlega um mál sem hafa leitt af sér afsögn ríkisstjórna svo fátt eitt sé nefnt. „Það er samt sem áður áhyggjuefni að Ísland sé að lækka núna enda mikilvægur tími fyrir frjálsa fjölmiðlun.“

Listinn byggir á ýmsum gögnum eins og tölfræði um réttindabrot blaðamanna. Tölfræði um myrta og fangelsaða blaðamenn í hverju landi vegur þó mikið. Evrópulöndin er flest að finna í efstu sætunum en Bretland er í 35. sæti og Bandaríkin í því 45. Norður Kórea vermir neðsta sætið.