Borgarstjórn hyggst verja tíu milljörðum króna í að nútímavæða þjónustu, gera umfangsmikla uppfærslu á tækniinnviðum og setja á fót Gagnsjá Reykjavíkur. Um er að ræða fjárfestingu sem er hluti af viðspyrnu borgarinnar, Græna planinu, vegna COVID-19 faraldursins þar sem borgin mun fjárfesta fyrir um 100 milljarða króna á næstu þremur árum.

Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata, segir að verkefnin hafi verið í undirbúningi frá upphafi kjörtímabilsins. Stefnt sé að því að Gagnsjáin verði komin í gagnið á næstu tveimur árum, mögulega verði frumútgáfa komin í loftið fyrir lok næsta árs.

Aðgerðaáætlun verður hrundið í framkvæmd við að nútímavæða þjónustu, svokallaðri stafrænni umbreytingu, allt frá því að vera með gagnvirkt yfirlit yfir leikskólapláss yfir í rafræn skil á teikningum til byggingarfulltrúa.

Síðan verður komið á Gagnsjá Reykjavíkur, sem ætlað er að stórauka gagnsæi í borginni, er það fjárfesting upp á rúmar 96 milljónir króna. Á þar að vera hægt að fylgjast með hvar mál eru í ferli ásamt fleiru.

Þá verður sett á fót lýðræðisgátt til að auðvelda borgarbúum að koma á framfæri athugasemdum og sjónarmiðum, fjárfesting upp á 60 milljónir. Ráðist verður í tölvuátak á öllum skólastigum og verður keyptur búnaður fyrir 700 milljónir króna á næstu þremur árum.

Meðal þess sem á að umbylta er innritun barna í skóla. Fréttablaðið/Stefán

Stór kostnaðarliður snýr að sex þróunarteymum sem koma til með að halda utan um nútímavæðinguna auk stafrænna leiðtoga inni á öllum sviðum borgarinnar. Ekki liggur endanlega fyrir hvernig fyrirkomulagið verður en líklega verði um að ræða blöndu af aðkeyptri þjónustu og tímabundnum stöðum.

Sem dæmi um breytt viðmót nefnir Dóra Björt umsóknir í leikskóla, í stað þess að velja einn leikskóla og annan til vara á eyðublaði verður hægt að sjá gagnvirkt hvar pláss er að finna.

„Þetta er frekar gamaldags ferli í dag. Við viljum að fólk hafi fleiri valkosti og betri yfirsýn við innritun í leikskóla. Þetta er eitt dæmi af mjög mörgum þjónustuferlum sem við ætlum að nútímavæða,“ segir Dóra Björt. „Þetta snýst allt um það að ferlið sé á forsendum þarfa íbúans en ekki á forsendum þarfa og þvermóðsku kerfisins.“

Þá mun borgin taka í notkun nýtt upplýsingastjórnunarkerfi, Hlöðuna, og svokallað gagnavöruhús.

„Þetta er allt hluti af því að gera kerfið gagnsærra og auðvelda gagnaöflun. Það kom mér á óvart þegar ég kom inn í borgarstjórn árið 2018 hversu erfitt það var að nálgast upplýsingar. Það vantaði yfirsýn, leitarvélin á vefnum var léleg og það var ekki alltaf hægt að leita eftir orðum inni í viðhengjum fundargerða sem dæmi,“ segir hún.

„Borgin er stærsti vinnustaður landsins, í dag er verið að nota mörg mismunandi kerfi sem eru ekki tengd saman. Með gagnavöruhúsi safnast öll gögnin saman þannig að þau tengjast öðrum gögnum auðveldlega og á skilvirkan hátt svo það sé hægt að spyrja spurninga og fá svör hratt og örugglega. Í dag getur það tekið margar vikur og kostað jafnvel margar milljónir að afla ákveðinna gagna sem geta skipt sköpum fyrir upplýsta ákvörðun.“

Dóra Björt segir að meirihlutaflokkarnir fjórir séu samstíga í að vilja gagnsæi í stjórnkerfinu. „Það mun nýtast íbúunum, kjörnum fulltrúum og auka traust á stjórnkerfinu. Við höfum ekkert að fela.“

Nokkur mál hafa komið upp síðustu misseri þar sem ógagnsæi í stjórnkerfi borgarinnar hefur verið gagnrýnt. Má þar nefna braggaverkefnið þar sem farið var fram úr fjárheimildum og nú síðast reikninga fyrir áfengi á Vinnustofu Kjarvals á vegum embættismanna sem rötuðu ekki inn á borð innkauparáðs.

Dóra Björt segir að ekki sé sérstaklega verið að bregðast við neinu ákveðnu máli en það hafi sýnt sig að gagnsæi leiði til sparnaðar

„Við höfum séð það á Alþingi að um leið og einhverjar tölur verða aðgengilegar almenningi þá dragast þær verulega saman eins og aksturskostnaður þingmanna,“ segir hún.

„Sólarljósið breytir tröllum í stein, ég býst ekki við öðru en að þetta verði jákvæður hvati til til aukinnar hagkvæmni en fyrst og fremst snýst þetta um lýðræðisleg vinnubrögð og traust.“