Rúmir 56 milljarðar fara í samgöngur á næsta ári samkvæmt nýju fjárlagafrumvarpi. Um er að ræða hækkun um rúma 10 milljarða.

Fjárheimildir eru auknar um 11,5 milljarða vegna fjárfestingarátaks ríkisstjórnarinnar til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar heimsfaraldurs. Einnig er gerð krafa um aðhald upp á 860 milljónir og lækkun á framlögum til Samgöngustofu vegna minna umfangs við flugtengda starfsemi og fleira.

Fjárfestingarnar verða mestar í framkvæmdum á vegakerfinu eða tæpir níu milljarðar, flugvellir fá 1,895 milljarða og hafnir 400 milljónir. Þá verður 200 milljörðum veitt til framkvæmda sem ráðast þarf í vegna óveðurs sem geisaði síðasta vetur.

Mest í stofnæðar á suðvesturhorninu

Veita á 4,840 milljörðum í stórátak í vegaframkvæmdum í samræmi við fjárfestingarátakið. Um er að ræða framkvæmdir stofnæðum út frá höfuðborgarsvæðinu; á Reykjanesbraut, Vesturlandsvegi og Suðurlandsvegi. Einnig eru nefndar framkvæmdir á Þverárfjallsvegi og Skagastrandarvegi, Borgarfjarðarvegi, Snæfellsnesvegi um Skógarströnd og hringtorg við Landvegamót á Eyrarbakkavegi og á Flúðum.

Einnig er vísað til hringvegs um Hornafjarðarfljót og Axarvegs um Öxi í fjárlagafrumvarpinu en áætlað er að um samstarf vegagerðarinnar við einkaaðila verði að ræða.

2,6 milljaraðar til að fækka einbreiðum brúm

Áætlað er að 2,6 milljörðum verði veitt til fækkunar einbreiðra brúa á hringvegi. Þar á meðal eru Gilsá á Völlum á Skriðdalsog Breiðdalsvegi, Núpsvötn, Stóra-Laxá á Skeiðaog Hrunamannavegi og Skjálfandafljót á hringvegi hjá Fosshóli og Goðafossi.

Þá fer 1,5 milljarður í að styrkja og leggja bundið slitlag á umferðarlitla tengivegi.

Flugvellir víða um land fá tæpa tvo milljarða

Áætlaðar fjárfestingar á flugvöllum nema tæpum 1,8 milljarði króna, í þeirri tölu er akbraut á Egilsstaðaflugvelli auk flughlaðs og flugstöðvar á Akureyri. Þá renna 100 milljónir til ISAVIA til viðhalds á innanlandsflugvöllum og lendingarstöðum í samræmi við fjárfestingarátak.

Samkvæmt fjármálaáætlun 2021 til 2025 nemur uppsöfnuð þörf viðhalds flugvalla innanlands á bilinu 7 til 8 milljarða króna. Er þar með talin nauðsynlegri endurnýjun flugbrauta og flughlaða á Reykjavíkurflugvelli, Akureyrarflugvelli og Egilsstaðaflugvelli. Aukið framlag til flugvalla í gegnum sérstakt tímabundið fjárfestingarátak nemur rúmum 800 milljónum króna í ár, alls mun það nema um 3,8 milljarða til ársins 2025.

400 milljónum króna verður varið til hafna. Þá renna 220 milljónir króna til framkvæmda vegna óveðurs sem geisaði síðasta vetur. Ekki kemur til auka útgjalda vegna Loftbrú.is, sem er kostnaðarþátttaka ríkisins í flugfargjöldum innanlands fyrir íbúa landsbyggðarinnar.