Árið í fyrra var gott bílasöluár í heiminum þrátt fyrir að samdráttur hafi átt sér stað á stærsta bílasölumarkaði heims í Kína, í fyrsta sinn í 20 ár. Alls seldust 78,7 milljón bílar í heiminum, örlítið minna en árið áður þegar seldust 79 milljón bílar. Sala bíla hefur verið mjög stöðug síðustu 3 ár og í ár stefnir í mjög ámóta sölu og í fyrra. Mikil söluaukning hefur hinsvegar orðið frá aldamótum og var meðaltalssalan á árunum 2000 til 2015 54,9 milljón bílar og meðaltalið frá 1990 til 1999 var 39,2 milljón bílar, eða um helmingi minni en síðustu 3 ár. Því má segja að ákveðinn stöðugleiki sé kominn á heimssöluna þessi árin eftir gríðarlegan vöxt á síðustu áratugum.

Mestu munar um Kína frá 2013

Mikið munar um innkomu Kína á bílamarkaðinn, en í fyrra seldust þar 23,3 milljón bílar en 24,2 milljón bílar árið á undan sem var stærsta bílsöluár Kína frá upphafi. Sé litið til ársins 2013 í Kína þá seldust þá 16,3 milljón bílar og því er aukningin um 7 milljón bílar til ársins í fyrra og á Kína langstærsta þáttinn í þeirri söluaukningu sem orðið hefur á þessum tíma í heiminum, eða um tvo þriðju aukningarinnar. Salan frá 2013 til 2018 hefur farið frá um 69 til 79 milljón bíla.

Væn aukning í Evrópu og Bandaríkjunum

Sala bíla í Evrópu jókst um 3,3 milljónir milli 2013 og 2018, úr 12,3 í 15,6 milljónir. Á sama tíma jókst salan í Bandaríkjunum um 1,7 milljón bíla, frá 15,5 til 17,2 og í Indlandi um 0,8 milljón bíla, úr 2,6 í 3,4 milljón bíla. Á móti kemur að minnkun varð í Rússlandi um 1 milljón bíla, í Brasilíu um 1,1 milljón bíla og Japan um 200.000 bíla.

Mikil aukning í Rússlandi og Brasilíu í fyrra

Af einstökum bílamörkuðum í fyrra ber hæst að salan í Kína minnkaði um 1,1 milljón bíla á milli ára. Salan í Bandaríkjunum stóð svo til í stað og salan í Evrópu og Japan líka. Í þessum þróuðu markaðssvæðum ríkir mesti stöðugleiki í sölu. Salan í hinu fjölmenna ríki Indlands er á stöðugri uppleið og jókst um 5% í fyrra og 9% árið þar á undan. Salan hefur farið úr 2,55 milljónum bíla þar árið 2013 í 3,39 milljón bíla í fyrra, eða upp um 33%. Salan í hinu stóra landi Brasilíu jókst þó ennþ.á meira í fyrra, eða um 14% og nam 2,5 milljón bílum og hefur vaxið um 24% á síðustu tveimur árum. Sala bíla í Rússlandi tók líka stökk í fyrra og óx um 13% og hefur vaxið um 26% á síðustu tveimur árum. Salan í Rússlandi er þó enn um 1 milljón bílum minni en árið 2013. Þá seldust 2,8 milljón bílar en 1,8 í fyrra.