Björgunaraðgerðir eftir leirskriðurnar sem féllu í bænum Ask í Gjerdrum héraði í Noregi í fyrrinótt héldu áfram af fullum krafti í nótt.

Tíu manns er enn saknað, þar á meðal fjölskyldu með börn. Leitin er erfið en jörðin á skriðusvæðinu er enn á hreyfingu.

„Það er algjörlega útilokað að senda björgunarsveitir á skriðuvæðið um þessar mundir, segir Dag Andre Sylju, yfirmaður björgunarsveitar í Gjerdrum í samtali við norska dagblaðið Verdens Gang, VG. Lögregla hefur því ekki enn ekki komist inn á skriðusvæðið og fer leit því fram með þyrlum, drónum og hitamyndavélum.

Gjerdrum er um 20 kílómetra norður af Ósló en fyrstu tilkynningar um leirskriðurnar bárust klukkan 04:00 í fyrrinótt. Í gær var íbúum í bænum, alls 900 manns gert að yfirgefa bæinn vegna hættuástands. Hús og bílar hafa verið dregin í skriðurnar og dæmi eru um að hús hafi færst um 400 metra.

Tíu manns er enn saknað, leitin mun halda áfram af fullum krafti í dag.
Fréttablaðið/AFP

Leitin hélt sem fyrr segir áfram í nótt en ekki tókst að finna þær tíu manneskjur sem enn er saknað. Meðal þeirra sem er saknað er þriggja manna fjölskylda, þar af ólétt kona og rúmlega tveggja ára stúlka. TV2 greinir frá.

„Leitin hefur verið mjög krefjandi í nótt, bæði vegna birtu og veðurfars," segir Dag Andre Sylju við VG, sem leggur þó áherslu á að þeir hafi ekki gefið upp vonina um að finna þau týndu á lífi.

Hundi bjargað

Norskir fjölmiðlar greindu frá því í gær að fjölskylda hafi neyðst til að yfirgefa Dalmatíu hund sinn á skriðisvæðinu þar sem þeim var óheimilt að taka hann með í þyrluna þegar fjölskyldunni var bjargað. Hundurinn fannst þó í nótt með hjálp dróna og er við góða heilsu og kominn í öruggt skjól.