Karl­maður var í síðustu viku dæmdur í tíu mánaða fangelsi fyrir tvær grófar líkams­á­rásir gegn sam­býlis­konu sinni, brot gegn vald­stjórninni og þjófnaðar- og um­ferðar­laga­brot.

Í dómi Héraðs­dóms Reykja­víkur kemur fram að á­rásirnar tvær áttu sér stað með skömmu milli­bili í fyrra og er maðurinn dæmdur fyrir að hafa veist að sam­býlis­konu sinni á heimili þeirra hrint henni, skellt henni í rúmið þar sem settist á hana, rifið í hár hennar og kýlt hana í­trekað í and­litið með krepptum hnefa og tekið hana kverka­taki en mbl.is greindi fyrst frá.

Maðurinn kvaðst fyrir dómi hafa verið að verjast brota­þola. Hann viður­kenndi að hafa hrint henni og lagt fram­hand­legg upp að háls hennar. Hann neitaði að öðru leyti verkanaðar­lýsingunni að ofan og sagði á­verka brota­þola skýrast af BDSM-kyn­lífi og krafðist sýknu.

Konan sagði fyrir dómi að á­kærði hafi hrint henni, tekið hana kverka­taki meðan hún lá á rúminu og í­trekað slegið hana í and­litið, sér­stak­lega vinstra megin og hefði vör hennar sprungið og hún misst heyrn.

Hún sagði sam­býlis­mann sinn einnig hafa setið ofan á sér og hótað að „stúta“ sér ef hún segði frá of­beldinu. Hún sagðist hafa verið með ákærða í um þrjú ár og var þetta ekki í fyrsta skipti sem hann beitti hana ofbeldi.

Með sýnilega áverka þegar lögreglu bar að garði

Sam­kvæmt lög­reglunni var konan með á­sýni­lega mikla á­verka í bæði skiptin og var hún flutt á slysa­deild. Í fyrra skiptið þegar lög­reglan mætti á heimilið var brota­þoli búinn að flýja vett­vang.

Að mati Héraðs­dóms var fram­burður brota­þola trú­verðugur og var niður­staða dómsins byggður á honum að því marki sem hann fékk stuðning í öðrum gögnum.

Í dómi Héraðs­dóms er tekið fram að maðurinn á að baki nokkurn saka­feril og hann hafi á tíma­bilinu 2003 til 2014 verið sak­felldur fyrir þjófnað sex sinnum.

Maðurinn var einnig dæmdur fyrir fjöl­mörg um­ferðar­laga­brot og sviptur öku­réttindum sínum í fjögur ár og sex mánuði.