Að minnsta kosti tíu eru látin og fimmtán slösuð eftir hnífsstunguárásir í fylkinu Saskatchewan í Kanada í dag. Kanadíska lögreglan hefur tilkynnt að hún leiti nú að tveimur karlmönnum, þeim Damien og Myles Sanderson, sem grunaðir eru um að standa fyrir árásunum.

Tilkynnt var um stunguárásirnar snemma morguns og viðvörun gefin út vegna hættulegra mannaferða í Saskatchewan. Í viðvöruninni er fólk beðið að gæta sín á svörtum Nissan Rouge með bílnúmerinu 119 MPI.

Lýst hefur verið eftir þeim Damien og Myles Sanderson vegna árásanna.
Mynd/EPA

Rhonda Blackmore, aðstoðarlögreglustjóri lögreglunnar í Saskatchewan, sagði við fjölmiðla að árásarmennirnir virtust hafa valið sum fórnarlömbin að undirlögðu ráði en að aðrar árásirnar virðist hafa verið handahófskenndar.

Árásirnar voru gerðar á mörgum mismunandi stöðum. Lögreglan í Saskatchewan er nú með alls þrettán staði til rannsóknar en samkvæmt viðvöruninni sáust hinir grunuðu í borginni Reginu í Saskatchewan stuttu fyrir hádegi.