Í Mexíkó eru tíu konur myrtar á hverjum degi. Sem vitað er um. Í nýrri skýrslu Am­ne­sty International, Justice on Tri­al, sem gefin var út í septem­ber 2021, voru 3.723 kyn­bundin morð á konum skráð í landinu árið 2020. Í skýrslunni kemur fram að rann­sókn málanna sé veru­lega á­bóta­vant. Sem dæmi er vett­vangur glæps ekki skoðaður nægi­lega vel, sönnunar­gögn týnast eða á­hugi er ekki til staðar á að sinna rann­sókn. Það leiðir svo til þess að málin rata sjaldan til dóm­stóla og að hinir seku sæta ekki á­byrgð.

„Við höfum unnið í þessu í mörg ár, en í septem­ber í fyrra sendum við til­kynningu til lög­reglunnar um að við værum sjálfar að rann­saka kvenna­morð, og þá sér­stak­lega í Ciu­dad Juares,“ segir Edith og bætir við að þær geri það vegna þess að þær telji lög­regluna ó­hæfa til að rann­saka morðin.

„Það hefur eitt­hvað verið að gerast með rann­sóknirnar undan­farið, en það er ekki nóg. Það er enn stórt verk­efni fyrir höndum, sem er að fá yfir­völd til að sinna sínum verk­efnum og gera það vel,“ segir Edith.

Edith segir að konur séu margar komnar með nóg.
Fréttablaðið/Eyþór

Yfir­völd óhæf

Hún segir frá því að mark­visst hafi verið unnið að því, af hálfu Am­ne­sty, að fá stjórn­völd til að hlusta. Það hafi verið sendar út til­kynningar auk þess sem sam­tökin hafi stutt skipu­lögð mót­mæli.

„Með skýrslunni erum við að mót­mæla því hvernig lög­regla tekur skýrslu af þol­endum og bendum á að hún svari konum með of­beldi, mis­noti vald sitt og berji og lemji þær til að sýna þeim hver ræður. Það sem gerðist 9. nóvember í Cancun var út í hött. Það var kornið sem fyllti mælinn,“ segir Edith, og á þar við mót­mæli sem voru skipu­lögð af femín­istum árið 2020 til að mót­mæla kvenna­morði og of­beldi gegn konum. Það fór ekki betur en svo að á mót­mælunum sjálfum voru konur skotnar, þeim nauðgað og ein­hverjum skellt í fanga­klefa fyrir þátt­töku.

„Konur voru beittar of­beldi og þeim nauðgað. Þau notuðu of­beldi gegn mót­mælendum og það getum við ekki sætt okkur við. Ekki nóg með að konum sé sýnd mikil harka og of­beldi, heldur er þeim ekki sýnd virðing,“ segir Edith.
Wen­dy tók sjálf þátt í um­ræddum mót­mælum og er ein þeirra sem voru skotnar af lög­reglunni.

„Konur fóru út á götu til að mót­mæla og sýna sam­stöðu með þeim sem hafa verið beittar of­beldi eða myrtar. En meðal kvenna er al­menn hræðsla um það hver verði næst, sama hvort um er að ræða of­beldi eða morð. Þetta var auð­vitað til­raun til þess, í mínu til­felli, þennan dag, 9. nóvember. Við mót­mæltum fyrir Alexis, sem var myrt, en auð­vitað líka fyrir aðrar konur sem voru myrtar á hrotta­legan hátt og fleiri sem hafa horfið spor­laust.“

Wendy var skotin tvisvar af lögreglu á mótmælum gegn kvennamorði þann 9. nóvember 2020.
Fréttablaðið/Eyþór

Skotin tvisvar á mót­mælunum

Wen­dy segir að mót­mælin hafi hafist við skrif­stofu em­bættis sak­sóknara – þangað sem konur fari til að gefa skýrslu.

„Starfs­fólkið er ó­hæft til að taka skýrslur af konum og því er illa sinnt þegar konur kvarta undan of­beldi. Okkur fannst þetta því góður staður til að hefja mót­mælin. Við vorum um þúsund þar og mörgum var mjög heitt í hamsi vegna á­standsins. Það var búið að kveikja eld á nokkrum stöðum og þannig vildi fólk sýna að því væri al­vara,“ segir Wen­dy.

Hún segir að eins hafi margir notað veggja­krot til að lýsa yfir megnri ó­á­nægju sinni með ýmsar stofnanir.

„Næst tókum við stefnuna á ráð­húsið og það var að­eins um tíu til fimm­tán mínútum eftir komu þangað sem of­beldið hófst fyrir al­vöru,“ segir Wen­dy og að þá hafi lög­reglan byrjað að skjóta, fyrst upp í loftið, en svo á mann­fjöldann.
Wen­dy varð á mót­mælunum sjálf fyrir tveimur skotum. Önnur kúlan fór í annan fótinn, en hin fór fyrst í rassinn og út um sköpin.

„Eftir þetta fréttum við að tveir blaða­menn hefðu orðið fyrir skoti, að tveimur konum hefði verið nauðgað, tvær hlutu al­var­lega höfuð­á­verka og átta konur voru fluttar á lög­reglu­stöðina þar sem þær voru settar í fanga­klefa.“
Wen­dy segir að fyrir mót­mælin hafi þessar konur ekkert þekkst, en í kjöl­far þeirra hafi verið búinn til sam­eigin­legur vett­vangur fyrir þær til að eiga sam­skipti.

„Okkar mark­mið er að halda á­fram að berjast fyrir rétti okkar til að mót­mæla og við viljum hvetja aðrar konur til að gera það sama. Við viljum láta heyra í okkur,“ segir Wen­dy.

Hún segir að núna, ári eftir að mót­mælin áttu sér stað, hafi ekki enn farið fram rann­sókn á því of­beldi sem hún varð fyrir og því hafi hún ekki fengið neitt rétt­læti, eða nein önnur kona sem var beitt of­beldi á mót­mælunum.

„Við viljum ekki peninga en við förum fram á að það sé viður­kennt að þetta var ó­þarft of­beldi og að yfir­völd viður­kenni að þau séu óhæf til að rann­saka hvert og eitt mál sem kemur á borð til þeirra.“

Wen­dy segir að í gegnum þetta allt hafi Am­ne­sty stutt þær, í skýrslu­töku og í kröfu þeirra um gagn­sæi.

Getur ekki hætt

Kom aldrei til greina að hætta að mót­mæla eftir að þú varst skotin?

„Nei, það hefur ekki hvarflað að mér að hætta. Fyrst og fremst vegna þess að það er nokkuð til sem heitir reisn. Ég get ekki hætt. Ég verð að koma þeim skila­boðum á­leiðis að það sé ekki hægt að koma svona fram við okkur.“

Hvaðan kemur kven­hatur í Mexíkó og eru mót­mælin fyrsta skrefið til að breyta því, ef það er hægt?

„Fyrst og fremst kemur þetta hatur frá yfir­völdum. Að bæla niður allt sem heitir mót­mæli. Sér­stak­lega þegar konur eiga í hlut. Og þá eru það ekkert bara „yfir­völd“. Ég er að tala um for­seta Mexíkó. Hann hefur sýnt virðingar­leysi gagn­vart öllu sem mætti kalla mót­mæli gegn kvenna­morðum. Það er hægt að byrja þar og þegar hann hundsar mót­mælin er alveg hægt að líta svo á að hann sé að hvetja hina til að drepa niður þetta and­óf. Þessar raddir sem eru að reyna að fæðast og vilja að á þær sé hlustað. Ef við byrjum þar og á því valdi sem hann hefur, það fara allir að hans for­dæmi,“ segir Edith og bætir við að lög­reglan hafi sýnt femín­istum mikla hörku og tengir það sér­stak­lega við við­horf for­setans.

Hún segir að Mexíkó sé karla­veldi og að hlut­verk kvenna sé mjög hefð­bundið, al­mennt séð.

„Hvernig við högum okkur og klæðum okkur. Konur verða að vera penar og mega ekki sýna styrk­leika. Þær eiga að vera undir­gefnar og sýna að þær þurfi á karl­manni að halda til að vernda þær,“ segir Edith og að margar konur í Mexíkó hafi til­einkað sér þetta.

„En þetta er að breytast. Ný kyn­slóð kvenna kemur inn með þrýsting og þær eru sterkar og það fer í taugarnar á mörgum. Þeir eru hrein­lega hissa á að sjá konur í hlut­verki sem þeir eru ekki vanir að sjá þær í. Og það eru ekki bara karlar sem eru hissa, það eru líka konur,“ segir Edith, og að femín­istar séu teiknaðir upp sem of­beldis­fullar konur sem verði að forðast.

Myndin er tekin þann 10. nóvember 2020 í Cancún þar sem hennar 20 ára Alexis var minnst en hún hvarf þann 7. nóvember 2020 og fannst svo 9. nóvember látin og myrt.
Fréttablaðið/EPA

Tíu morð toppurinn á ís­jakanum

Hvernig er að vera kona í Mexíkó? Er stans­laus ótti og hræðsla við að vera næst?

„Þær tölur sem við sjáum eru bara toppurinn á ís­jakanum og eru langt frá því að sýna fram á raun­veru­lega tíðni of­beldis. Við vitum það og það sem er hættu­legast af öllu er að það sé gert lítið úr þessu of­beldi,“ segir Wen­dy og að í raun sé vanda­málið svo stórt að konur séu orðnar sam­dauna of­beldinu og geri sér stundum ekki grein fyrir því að um of­beldi sé að ræða, því of­beldis­full sam­skipti eru svo tíð.

„Það er absúrd að segja það en við erum búin að normalí­sera of­beldi. Sem er ó­mögu­legt. En þetta er bara þannig.“
Edith tekur undir þetta og segir að Mexíkó sé mjög hættu­legur staður fyrir konur. Tíu konur séu myrtar á hverjum degi og þá sé ekki talinn sá fjöldi sem er beittur of­beldi.

„Morðin geta verið marg­vís­leg, en flest tengjast þau heimilis­of­beldi. Þetta eru hræði­legar tölur. Hættan er ekki bara á heimilinu, sem á að vera at­hvarf, heldur er of­beldi þar, á vinnu­staðnum, úti á götu og kyn­ferðis­legt of­beldi og á­reitni úti um allt. Svo er ekki nóg með það, heldur þegar konur fá nóg og mót­mæla, þá eru þær líka beittar of­beldi þar, af bæði sam­borgurum sínum og lög­reglu. Það er ó­þolandi að búa á stað þar sem þú getur engum treyst og þú býrð alltaf við ein­hverja ógn. Þetta er ó­geð­fellt.“
Ís­lendingar geta hjálpað

Geta ís­lensk stjórn­völd gert eitt­hvað til að að­stoða, eða Ís­lendingar?

„Ég er bjart­sýn og held að Ís­lendingar og ís­lensk stjórn­völd geti að­stoðað okkur við að minnka of­beldið. Það sem yfir­völd hérna þola ekki er þegar ein­hver annar segir þeim fyrir verkum, eða ef ein­hver bendir þeim á hversu baga­legt og slæmt á­standið er. Það getur því verið gott að láta marga vita og ef þið látið í ykkur heyra um á­standið í Mexíkó. Við viljum gagn­sæi og það er okkar eina von fyrir betri að­stæður fyrir konur í Mexíkó,“ segir Wen­dy og bætir við:

„Okkar tími er kominn. Við erum að vakna eftir langan dvala og erum að reyna að koma ýmsu til skila, en við byrjum á mót­mælum.“

Edith tekur undir þetta og hvetur ís­lensk stjórn­völd til að beita sér fyrir sam­stöðu með konum í Mexíkó.

Grípa má til að­gerða og skrifa undir mál Wen­dy og annarra þol­enda mann­réttinda­brota á vefnum am­ne­sty.is,en undir­skrifta­söfnunin er opin fram á sunnu­dag.