Alls hafa tíu hús orðið fyrir aurskriðunum sem hafa fallið á Seyðisfirði í dag. Stór aur­skriða féll úr Botna­brún, milli Búðar­ár og Stöðvar­lækjar, skömmu fyrir klukkan þrjú í dag og féll á nokkur hús. Neyðarstigi hefur verið lýst yfir á staðnum.

Að sögn Jóhanns K. Jóhannssonar, upplýsingafulltrúa almannavarna, er rýming hafin á Seyðisfirði. Hann segir að íbúum sé stefnt í félagsheimilið á Herðubreið þar sem fólk þarf að gefa sig fram og skrá sig. Hann segir að fólk að fólk geti einnig hringt í 1717 til að tilkynna sig.

„Það eru rútur á leiðinni yfir og svo verður opnuð fjöldahjálparstöð í Egilsstaðaskóla,“ segir Jóhann.

Varðskipið Týr hefur verið kallað út til að vera til taks á Seyðisfirði. Skipið leggur af stað frá Reykjavík á næstu klukkustund en gera má ráð fyrir að varðskipið verði komið austur síðdegis á morgun.

Að sögn Ásgeirs Erlendssonar, upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar, er 18 manna áhöfn um borð sem verður til taks. Engin verkefni eru eins og er sett fyrir en bæði er hægt að nýta áhöfn og skipið þegar þau verða komin á vettvang.