Alls hafa tíu fundist látin í rústum byggingarinnar í út­hverfinu Surfsi­de í Miami en blokkin hrundi fyrir­vara­laust, að því er virðist, á fimmtu­daginn í síðustu viku. Enn er 151 íbúa blokkarinnar saknað.

Em­bættis­menn hvöttu fólk til að halda enn í vonina að ást­vinir þeirra gætu fundist en björgunar­að­gerðir eru í gangi allan sólar­hringinn.

„Þau eru þarna úti með allt sem þau þurfa til að tryggja að hægt sé að leita þarna, sagði Dani­ella Levine Cava ,Bæjar­stjórinn í Miami-Dade sýslu, á blaða­manna­fundi og að það væri notast við hunda, mynda­vélar og óm­sjár.

Bæjar­stjórinn sagði að búið væri að stað­festa að 135 í­búar blokkarinnar séu á lífi.

Andy Al­varez hjá slökkvi­liðinu í Miami-Dade sýslu sagði að björgunar­fólk hefði enn von. Hann sagði að þau hefðu fundið göt í rústunum, aðal­lega í kjallaranum og nærri bíla­kjallaranum. Hann sagði að að­stæður væru erfiðar vegna rigningar, hita og raka.

Alls eru um 300 manns að leita, þar á meðal al­þjóð­legir sér­fræðingar. Greint er frá á Guardian.

Vita ekki af hverju byggingin hrundi

Á sama tíma og leit fer fram er leitað að or­sökum hrunsins en byggingar­verk­fræðingar hafa nokkrar til­gátur um hvers vegna byggingin hrundi en telja að það taki um mánuði eða ár að greina það.

Greint hefur verið frá því áður að árið 2018 varaði byggingar­verk­fræðingur við „mjög miklum göllum í hönnun byggingarinnar“ en skýrsla hans gaf þó ekki til kynna að byggingin væri við það að hrynja.

Í grein New York Times um mögu­legar á­stæður hrunsins segir að verk­fræðingar séu sér­stak­lega að skoða neðri hluta byggingarinnar en þar virðist hrunið hafa byrjað. Á mynd­skeiði má sjá að mið­hluti byggingarinnar hrundi fyrsta og svo austur­hlið hennar.

Byggingin hrundi klukkan 1.30 eftir mið­nætti á fimmtu­dag. Enginn hefur fundist á lífi síðan þá.

Húsið var byggt árið 1981 og talið er að 55 í­búðir hafi verið í þeim hluta hússins sem hrundi en ekki er vitað hversu margir voru heima við þegar hæðin hrundi. Alls eru 136 í­búðir í blokkinni allri.

Aðeins hafa tíu fundist látin. Enn er 151 saknað.
Fréttablaðið/EPA
Eyðileggingin er mikil.
Fréttablaðið/EPA
Aðstandendur hafa hengt upp myndir af týndum ástvinum sínum.
Fréttablaðið/EPA