Ljóst var um hádegisbil að félagsmenn VR í hópbifreiðafyrirtækjum á félagssvæði VR og í gistiþjónustu á höfuðborgarsvæðinu og í Hveragerði munu, að öllu óbreyttu, leggja niður störf þann 22. mars næstkomandi. 

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir í samtali við Fréttablaðið að hann vonist þó til þess að það náist að semja á þeim tíu dögum sem eru til stefnu til verkfalla. Hann segir að það sé á ábyrgð Samtaka atvinnulífsins (SA) að koma fram með tilboð sem sé „tækt“ fyrir hans félagsmenn.

„Nú liggur fyrr að við erum að fara í þessar aðgerðir og í sjálfu sér leyfi ég mér að vona að þessi niðurstaða verði til þess að okkar samningsaðilar komi að borðinu og við förum að klára þetta,“ segir Ragnar Þór, formaður VR, í samtali við Fréttablaðið í dag.

Það eru tíu dagar til stefnu, þannig það er tími?

„Það er ekki gleðiefni að þurfa að fara í þennan átakafarveg með deiluna, sérstaklega í ljósi þess að þetta er að mínu mati leysanlegt,“ segir Ragnar Þór.

Hann segist vonast til þess að nú fari af stað sama ferli og átti sér stað árið 2015. Að samið verði áður en til verkfalla kemur. Hann segir að eins og staðan er núna eru engir skipulagðir fundir á dagskrá en að hann leyfi sér að vona að það komist einhverjar glæður í viðræður þegar það er orðið ljóst að félagsmenn eru tilbúnir í verkföll.

Á ábyrgð SA að koma með tilboð

Spurður hvort hann bíði eftir því að SA kalli þau aftur að borðinu segir hann að niðurstöðurnar séu auðvitað nýjar, en að það þurfi að leggjast yfir málin.

„Hver sem hefur samband við hvern þá þarf að leggjast yfir þetta. Við fórum út úr þessu með tilboð frá Samtökum atvinnulífsins upp á kaupmáttarrýrnun fyrir okkar félagsmenn. Tilboð sem að nær ekki til svigrúms sem sjálfur Seðlabankinn telur að sé til skiptanna. Það hljóta allir að sjá að, ef að það er lokaútspil Samtaka atvinnulífsins, að þá verður þessum átakafarvegi skellt á þeirra herðar og á þeirra ábyrgð,“ segir Ragnar Þór.

Hann segir að nauðsynlegt sé að SA komi að borðinu með tilboð sem hægt sé að taka til þeirra félagsmanna til atkvæðagreiðslu.

„Það er á þeirra ábyrgð að koma með myndarlegri hætti að borðinu og koma með tilboð sem er tækt til að taka til okkar félagsmanna í atkvæðagreiðslu. Það eru alltaf þeir sem taka endanlega ákvörðun um þetta. Lokaorðið er alltaf okkar félagsmanna,“ segir Ragnar Þór að lokum.

Rúmur helmingur samþykkti verkfall

Rafrænni atkvæðagreiðslu lauk á hádegi í dag. Í tilkynningu frá stéttarfélaginu kemur fram að á kjörskrá hafi verið 959 félagsmenn VR og alls greiddu 578 þeirra atkvæði. Kosningaþátttaka var því um 60,2 prósent. 

52,25 prósent (302 atkvæði) samþykktu verkfallsaðgerðir en 45,33 prósent (262 atkvæði) voru á móti. 2,42% (14 atkvæði) tóku ekki afstöðu.

Sjá einnig: Fé­lags­menn VR sam­þykkja verk­fall