Það eru yfir þúsund manns búnir að melda sig á Facebook svo við búumst við heljarinnar partíi,“ segir Óli Dóri, rekstrar- og viðburðastjóri hjá KEX Hostel, um KEX Port útitónleikana sem fara fram þar í dag. „Mætingin hefur alltaf verið mjög góð, en viðburðurinn hefur reyndar ekki verið haldinn í nokkur ár vegna framkvæmda.“

Umrætt port hefur farið í gegnum andlitslyftingu undanfarin ár og segir Óli Dóri að nú standi til að halda þar fjölbreytta dagskrá eins og þekktist þar áður. „Það myndaðist frábær stemning hjá okkur þegar við sýndum EM á risaskjá og almennt hefur stemningin í sumar verið mjög góð. Það er kannski ekki skrítið þar sem mér finnst þetta vera eitt glæsilegasta útisvæðið í Reykjavík.“

Miklar framkvæmdir hafa staðið yfir í portinu, sem er nú orðið hið glæsilegasta.
Fréttablaðið/Ernir

Tónleikarnir í dag standa yfir frá klukkan 14 til 24 og koma þar fram einar tíu hljómsveitir og listamenn, auk þess sem boðið verður upp á léttar veitingar. „Við verðum að gefa þeim sem mæta fyrst eitthvað að borða og drekka, og svo er það bara stemning frá tvö til miðnættis,“ segir Óli Dóri.

Það er ákveðinn hátíðarbragur yfir viðburðinum í ár, þar sem um tíu ár eru liðin síðan KEX hostel var opnað. „Staðurinn opnaði í apríl 2011 og frá upphafi var lagt upp með að vera með aðeins öðruvísi gistiheimili,“ segir Óli Dóri. „Þetta átti ekki bara að vera gistiheimili, heldur líka staður fyrir tónleika og alls kyns viðburði og KEX hefur þróast í takt við það og er í dag orðið að eins konar menningarmiðstöð. Við bjóðum upp á marga viðburði í viku og hlúum eins og við getum að grasrótinni. Margir af stærstu tónlistarmönnum Íslands tóku sín fyrstu skref hér á KEX.“

Óli Dóri segir að menningarstefna KEX liti einnig út frá sér í kúnnahóp gistiheimilisins. „Ferðalangarnir sem koma hingað vilja gista á lifandi stað,“ segir hann. „Þegar ég ferðast sjálfur leita ég alltaf af stöðum þar sem er fólk, lifandi stemningu og viðburðum. Það er svipaður hópur sem við erum að fá hingað til okkar.“

Rétt eins og á öðrum gististöðum landsins hefur líf verið að færast yfir KEX með auknu streymi ferðamanna, en Óli Dóri segir að þó hafi tekist að halda dampi í faraldrinum. „Við náðum að vera með viðburði hjá okkur í samræmi við sóttvarnatakmarkanir þar sem þetta er svo stór staður,“ segir hann. „Síðasta mánuðinn er þetta þó búið að stóraukast og í dag er nóg að gerast hjá okkur. Við höfum verið með sumartónleikaröð og stefnum á að halda því áfram. Í nóvember verðum við svo með Airwaves dagskrá, svo þetta heldur allt saman áfram. Við erum rétt að byrja.“