Þrátt fyrir að flest okkar hafi ekki efni á að klæðast há­tísku­fatnaði dags­dag­lega höfum við mörg gaman af því að skoða slíkan fatnað og láta okkur dreyma. Með því að skoða stíl stjarnanna, fletta tísku­blöðum og skrolla á Insta­gram getum við fengið inn­blástur og hug­myndir og þannig þróað okkar eigin stíl.

Harry Sty­les, Díana prinsessa, Grace Jones, Ri­hanna og André Leon Tall­ey eiga það sam­eigin­legt að vera það sem við köllum tísku­fyrir­myndir. Þau hafa öll sinn sér­staka stíl, eru ó­hrædd við að klæðast hverju sem er og sjálfs­traust er ein­kennandi fyrir þau öll.

Grace Jones

Fyrir­sætan, leik- og söng­konan Grace Jones fæddist árið 1948 á Jamaíka. Hún hefur í gegnum tíðina verið í miklu upp­á­haldi hjá hönnuðum sem vilja með hönnun sinni sína ótta­leysi og kyn­þokka og hefur hún verið þeim mörgum inn­blástur.

Grace Jones klæðist því sem hana langar og ber fötin vel, þá er hún þekkt fyrir sjálfs­öryggið sem af henni skín. Á áttunda og níunda ára­tugnum var Grace Jones kölluð drottning dí­skósins og var hún aðal­pían í Stu­dio 54 í New York.

Grace Jones.
Fréttablaðið/Getty

Díana prinsessa

Lafði Diana Spencer, betur þekkt sem Díana prinsessa, var að­eins 36 ára gömul þegar hún lést en er þrátt fyrir stutta ævi sína af mörgum talin eitt mesta tísku­íkon sögunnar. Díana var þekkt fyrir tíma­lausan og klassískan klæðnað en prinsessan er ein mest myndaða kona heims.
Þá var hún þekkt fyrir að tjá sig í gegnum fata­stíl sinn sem var lit­ríkur og glað­legur og
að sögn margra tísku­sér­fræðinga af­hjúpaði fata­stíll hennar hlý­legan og sjarmerandi per­sónu­leika hennar.

Díana prinsessa.
Fréttablaðið/Getty

André Leon Tall­ey

Goð­sögnin og braut­ryðjandinn André Leon Tall­ey lést í janúar á þessu ári, 73 ára gamall. Tall­ey þykir ó­líkur öllum öðrum þegar kemur að klæða­burði, tísku­vitund og stíl. Hann á sér marga að­dá­endur og er ein­kenni hans stórir víðir kjólar, jakkar og úlpur.

Tall­ey er sér­fræðingur þegar kemur að tísku og starfaði hann meðal annars sem list­rænn stjórnandi banda­ríska Vogu­e og var hann lengi hægri hönd Önnu Win­tour, rit­stjóra tíma­ritsins. Hann er sagður hafa rutt brautina fyrir svartar fyrir­sætur í tísku­bransanum og aukið fjöl­breyti­leika innan bransans.

André Leon Talley.
Fréttablaðið/Getty

Harry Sty­les

Söngvarinn Harry Sty­les var afar ungur þegar hann varð heims­frægur með hljóm­sveitinni One Direction. Harry er þekkur fyrir djarfan fata­stíl og undan­farið hefur hann vakið at­hygli fyrir að brjóta kynja­við­mið þegar kemur að fata­vali.

Hann er ekki hræddur við að stíga út fyrir ramma tví­hyggjunnar, klæðist kjólum, pilsum, korselettum og notar nagla­lakk jafn­oft og hann klæðist hefð­bundnum jakka­fötum, galla­buxum og skyrtum. Harry Sty­les slær í gegn hvar sem hann kemur og hefur mikil á­hrif á klæða­burð og tísku­vitund ungs fólks.

Harry Styles.
Fréttablaðið/Getty

Rihanna

Tón­listar­konan Ri­hanna frá Barba­dos er af mörgum í tísku­heiminum kölluð kamel­ljónið. Þar er vísað til þess að hún er afar fjöl­breytt þegar kemur að fata­vali, breytir oft um hára­lit og er gjörn á að koma fólki á ó­vart. Ri­hanna er alltaf með puttann á púlsinum þegar kemur að tísku og er sögð geta borið hvaða föt sem er.

Hún er mikill á­hrifa­valdur, svo mikill að á tíma­bili var hún með skær­rautt hár og í kjöl­farið fór að bera á ungu fólki um heim allan sem skartaði slíkum hára­lit. Ri­hanna elskar stórar galla­buxur, striga­skó og há stíg­vél á sama tíma og hún ber ga­la­kjóla og kven­legar flíkur afar vel.

Rihanna.
Fréttablaðið/Getty