Á fyrstu átta mánuðum þessa árs voru veitt 503 leyfi til skilnaða frá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu (SMH), það eru að meðaltali tæp 63 skilnaðarleyfi í hverjum mánuði. Allt síðasta ár voru veitt 752 leyfi til skilnaðar eða 63 í mánuði að meðaltali og árið 2018 voru þau 769. Þetta kemur fram í svari SMH við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Fram til 1. september síðastliðins voru veitt 217 leyfi til skilnaðar að borði og sæng hjá umdæmi SMH, 204 leyfi til lögskilnaðar að undangengnum skilnaði að borði og sæng og 82 leyfi til beins lögskilnaðar án undangengins skilnaðar að borði og sæng. Þetta eru svipaðar tölur og árin á undan.

Á sama tímabili voru staðfestir samningar um forsjá og meðlag vegna sambúðarslita 154 talsins, eða að meðaltali um sautján í hverjum mánuði. Það sama á við um fjölda slíkra samninga árin á undan sem voru 204 talsins árið 2019 og 212 árið 2018.