Aðeins fimm dagar eru nú í að kjördagur renni upp í Bandaríkjunum þar sem kosið verður um næsta forseta Bandaríkjanna, alla fulltrúadeild Bandaríkjaþings og 35 sæti af 100 í öldungadeildinni. Mjög líklegt er að Demókratar haldi meirihluta sínum innan fulltrúadeildarinnar og er það raunhæfur möguleiki að þeir nái einnig meirihluta innan öldungadeildarinnar.

Baráttan um embætti forseta Bandaríkjanna er nú milli Donalds Trump Bandaríkjaforseta og Joes Biden, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna og forsetaframbjóðanda Demókrata. Bandaríska þjóðin kýs þó ekki forseta beint heldur er í gildi kjörmannakerfi í Bandaríkjunum, þar sem kjósendur kjósa kjörmenn sem síðan kjósa forseta. Fjöldi kjörmanna í hverju ríki er sá sami og fjöldi þingmanna.

Áreiðanlegri kannanir

Til að vinna forsetakosningarnar þarf forsetaframbjóðandi að ná að minnsta kosti 270 kjörmönnum í heildina en í 48 ríkjum og Washington D.C. fara allir kjörmenn ríkisins til frambjóðandans sem fær flest atkvæði. Í Nebraska og Maine er kjörmönnum skipt á sýslur. Kannanir í ár benda til að staða Bidens sé sterkari en Trumps, bæði á landsvísu og í svokölluðum barátturíkjum.

Þrátt fyrir að margir séu tregir til að treysta könnunum eftir ósigur Clinton árið 2016 er ýmislegt sem bendir til að kannanirnar séu áreiðanlegri í ár. Til að mynda eru færri óákveðnir heldur en voru árið 2016 og ólíklegt að frambjóðandi frá öðrum flokki taki mikið fylgi, eins og Gary Johnson gerði árið 2016.

Þá hafa skoðanakönnuðir gert ýmislegt til að lagfæra kannanir sínar, til að mynda með því að vega svör með tilliti til ýmsra þátta, en í könnunum árið 2016 var menntun ekki tekin nægilega vel inn í myndina. Einnig hafa flestir lært að rýna meira í kannanir ákveðinna ríkja frekar en kannanir á landsvísu.

Þrettán barátturíki

Flestir skoðanakönnuðir eru sammála um að 13 ríki séu mikilvægust í ár, en 20 ríki og þrjú af fjórum sætum í Nebraska eru talin líkleg eða örugg fyrir Repúblikana, alls 125 kjörmenn, á meðan 17 ríki, Washington D.C. og þrjú af fjórum sætum í Maine eru talin líkleg eða örugg fyrir Demókrata, alls 212 kjörmenn.

Af ríkjunum sem barist er um hallast sjö ríki og ein sýsla í Nebraska, 78 kjörmenn í heildina, að Demókrötum á meðan eitt ríki, með 38 kjörmenn, hallast að Repúblikönum. Í fimm ríkjum og einni sýslu í Maine, 85 kjörmenn í heildina, eru líkurnar jafnar. Flest ríkin sem barist er um í dag eru ríki sem Trump vann árið 2016, en einnig er barist um nokkur ríki sem Clinton vann naumlega.


Click the map to create your own at 270toWin.com

Baráttan um Pennsylvaníu og Flórída

Þrjú stærstu ríkin sem barist er um í kosningunum í ár eru Pennsylvanía, Flórída og Texas, en samanlagt er þar um að ræða 87 kjörmenn sem Trump tók árið 2016. Samkvæmt könnunum mælist Biden aðeins sterkari í Pennsyl­vaníu, Trump mælist aðeins sterkari í Texas, og jafnar líkur eru í Flórída, þar sem rétt rúmlega eitt prósent er á milli fylgi Bidens og Trumps.

Ef Trump tapar Flórída eða Pennsylvaníu minnka líkur hans á sigri verulega, ef hann tapar Texas er nánast öruggt að Biden sigri. Ef Biden aftur á móti tapar Flórída eða Pennsylvaníu minnka líkurnar á sigri Bidens, en hann gæti enn unnið ef hann nær öðrum ríkjum. Það eru því fleiri leiðir að embættinu fyrir Biden en fyrir Trump, samkvæmt könnunum.

Ekkert öruggt

Eins og staðan er í dag hafa yfir 75 milljón manns greitt atkvæði sín til forseta, rúmlega helmingur af heildarkjörsókn árið 2016, en sögulega séð er mikil kjörsókn ekki góðs viti fyrir sitjandi forseta. Þá eru Demókratar líklegri til að kjósa fyrir sjálfan kjördag.

Þó er óttast að mörg póstatkvæði verði ekki tekin gild, til að mynda ef þau berast of seint, undirskriftir eru ekki í samræmi við þær sem eru á skrá, fólk skrifar í vitlausa línu, og svo framvegis. Þá á Hæstiréttur Bandaríkjanna enn eftir að úrskurða í nokkrum málum sem tengjast póstatkvæðum.

Þannig er raunhæfur möguleiki að atkvæði fólks sem kýs fyrir kjördag verði ekki talin með auk þess sem kannanir eru ekki spádómur. Þannig er í raun ekkert öruggt í kosningunum í ár, allt getur gerst og mun aðeins tíminn leiða í ljós hver næsti forseti Bandaríkjanna verður.

Hér fyrir neðan má sjá upplýsingar um kannanir árið 2016, niðurstöður 2016 og kannanir í ár. Upplýsingarnar um kannanir í ár og árið 2016 koma frá heimasíðunni FiveThirtyEight og spálíkani þeirra.


Arizona - 11 kjörmenn

Kannanir 2016 = 45,4 prósent Clinton / 47,6 prósent Trump

Niðurstaða 2016 = 44,6 prósent Clinton / 48,1 prósent Trump

Kannanir 2020 = 50,9 prósent Biden / 47,8 Trump

Flórída - 29 kjörmenn

Kannanir 2016 = : 48,1 prósent Clinton / 47,5 prósent Trump

Niðurstaða 2016 = 47,8 prósent Clinton / 49 prósent Trump

Kannanir 2020 = 50,4 prósent Biden / 48,8 prósent Trump

Georgía - 16 kjörmenn

Kannanir 2016 = 45,5 prósent Clinton / 49,5 prósent Trump

Niðurstaða 2016 = 45,4 prósent Clinton / 50,4 prósent Trump

Kannanir 2020 = 49,9 prósent Biden / 49,4 prósent Trump

Iowa - 6 kjörmenn

Kannanir 2016 = 45,1 prósent Clinton / 48 prósent Trump

Niðurstaða 2016 = 41,7 prósent Clinton / 51,2 prósent Trump

Kannanir 2020 = 49,4 prósent Biden / 49,3 prósent Trump

Michigan - 16 kjörmenn

Kannanir 2016 = 48,4 prósent Clinton / 44,2 prósent Trump

Niðurstaða 2016 = 47,3 prósent Clinton / 47,5 prósent Trump

Kannanir 2020 = 53,5 prósent Biden / 45,4 prósent Trump

Minnesota - 10 kjörmenn

Kannanir 2016 = 48,9 prósent Clinton / 43,1 prósent Trump

Niðurstaða 2016 = 46,4 prósent Clinton / 44,9 prósent Trump

Kannanir 2020 = 53,6 prósent Biden / 44,9 prósent Trump

Nevada - 6 kjörmenn

Kannanir 2016 = 47,1 prósent Clinton / 45,9 prósent Trump

Niðurstaða 2016 = 47,9 prósent Clinton / 45,5 prósent Trump

Kannanir 2020 = 52,8 prósent Biden / 45,7 prósent Trump

New Hampshire - 4 kjörmenn

Kannanir 2016 = 47,5 prósent Clinton / 43,9 prósent Trump

Niðurstaða 2016 = 47,6 prósent Clinton / 47,3 prósent Trump

Kannanir 2020 = 54,7 prósent Biden / 44,3 prósent Trump

Norður-Karólína - 15 kjörmenn

Kannanir 2016 = 48,2 prósent Clinton / 47,5 prósent Trump

Niðurstaða 2016 = 46,2 prósent Clinton / 49,8 prósent Trump

Kannanir 2020 = 50,6 prósent Biden / 48,7 prósent Trump

Ohio - 18 kjörmenn

Kannanir 2016 = 45,8 prósent Clinton / 47,7 prósent Trump

Niðurstaða 2016 = 43,6 prósent Clinton / 51,7 prósent Trump

Kannanir 2020 = 48,9 prósent Biden / 50,1 prósent Trump

Pennsylvanía - 20 kjörmenn

Kannanir 2016 = 48,9 prósent Clinton / 45,2 prósent Trump

Niðurstaða 2016 = 47,5 prósent Clinton / 48,2 prósent Trump

Kannanir 2020 = 52,2 prósent Biden / 47,1 prósent Trump

Texas - 38 kjörmenn

Kannanir 2016 = 42,5 prósent Clinton / 51 prósent Trump

Niðurstaða 2016 = 43,2 prósent Clinton / 52,2 prósent Trump

Kannanir 2020 = 48,1 prósent Biden / 50,9 prósent Trump

Wisconsin - 10 kjörmenn

Kannanir 2016 = 49,6 prósent Clinton / 44,3 prósent Trump

Niðurstaða 2016 = 46,5 prósent Clinton / 47,2 prósent Trump

Kannanir 2020 = 53,5 prósent Biden / 45,6 prósent Trump