Sýslumenn eru farnir að undirbúa utankjörfundaratkvæðagreiðslu fyrir alþingiskosningarnar sem halda á 25. september næstkomandi. Ekki er enn ljóst hvenær hún getur hafist þar sem kjördagur hefur ekki verið formlega auglýstur.
Þegar kjörtímabil klárast í venjulegu árferði má hefja atkvæðagreiðslu átta vikum fyrir kjördag. Nú hefur kjördagur hins vegar ekki enn verið auglýstur og þing ekki verið rofið. Frá þingrofi mega ekki líða meira en 45 dagar. Miðað við kjördag 25. september verður þing rofið í fyrsta lagi 12. ágúst.
Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar getur hafist strax daginn eftir, að sögn Sigríðar Kristinsdóttur, sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Það þýðir að unnt verður að greiða atkvæði utan kjörfundar í mesta lagi í sex vikur.
„Undirbúningur er hafinn. Við munum hittast í næstu viku til að fara yfir stöðuna, allir sýslumenn á landinu og dómsmálaráðuneytið,“ segir Sigríður og bætir við: „Við eigum að kunna þetta mjög vel. Við byrjum hér á embættinu og færum okkur svo á stærri staði og lengjum opnunartímann.“
Aðspurð um sóttvarnir segir Sigríður að farið verði að öllum tilmælum sóttvarnalæknis eins og þau eru á hverjum tíma.
„Gildandi reglugerð heilbrigðisráðherra er í gildi til 13. ágúst og við munum undirbúa okkur miðað við þá reglugerð, en bregðast svo við ef eitthvað breytist,“ segir Sigríður. Embættin hafa áður skipulagt utankjörfundaratkvæðagreiðslu eftir að faraldurinn skall á. „Það voru forsetakosningar á síðasta ári þannig að við þekkjum þetta mjög vel,“ segir Sigríður. ■