Mikil umræða hefur skapast á samfélagsmiðlum um áfallahjálp en fjölmargir kvarta yfir því að einungis prestar sinni sálgæslu hjá Landspítalanum.

Þar á meðal er Kristín Soffía Jónsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, sem segist hafa afþakkað áfallahjálp frá presti og óskað eftir óháðum fagaðila en ekki fengið.

„Við vorum stödd á gjörgæsludeild og var boðið áfallahjálp frá presti. Við afþökkuðum það en óskuðum eftir sekúlar aðila og fengum þau svör að það yrði erfitt. Þau hvöttu okkur ítrekað til þess að ræða við prest en við afþökkuðum og vorum skýr á því að við vildum ræða við óháðan fagaðila. Þetta var fyrir mánuði og við höfum ekkert heyrt,“ segir Kristín Soffía í samtali við Fréttablaðið og bætir því við að hún hafi sjálf þurft að sækja sér sálfræðiaðstoð og greitt úr eigin vasa, 18 þúsund krónur á tímann.

Formaður Siðmenntar segist hafa heyrt ítrekað í gegnum árin að fólk afþakki aðstoð presta og biðji um eitthvað annað en fái svo ekkert.

„Það eru ekki allir sem kæra sig um að fá þessa þjónustu frá prestum. Sérstaklega þegar þú ert að kveðja ástvin sem liggur á dánarbeði. Vilt þú þá þiggja þjónustu frá aðila sem trúir kannski á eftirlífið þegar þú gerir það ekki? Þetta er mikilvæg þjónusta hjá Landspítalanum og þau segja að þessi þjónusta sé fyrir alla þó að þetta séu prestar sem sinna henni. Ég efast um að allir vilji þiggja áfallahjálp frá presti,“ segir Inga Auðbjörg Straumland, formaður Siðmenntar.

Þurfa að vera guðfræðingar

Samkvæmt nýrri könnun Maskínu fyrir Siðmennt er aðeins lítill minnihluti sem telur að bjóða ætti eingöngu upp á kristilega sálgæslu, eða 3,2 prósent. Stór meirihluti, eða 79 prósent, vill að Landspítalinn bjóði upp á bæði kristilegan og veraldlegan valkost þegar kemur að sálgæslu.

Nanna Briem, geðlæknir og forstöðumaður Geðþjónustu Landspítala, staðfestir að áfallahjálp sé í boði frá öðrum en sálgæslunni hjá Landspítalanum.

Á Landspítala sinna ýmsar starfsstéttir sálrænum stuðningi og veita áfallahjálp bæði með óformlegum og formlegum hætti. Til að mynda sálfræðingar og hjúkrunarfræðingar en svo er mismunandi hvaða þjónusta er í boði á ólíkum einingum spítalans, fyrir hverja og í tengslum við hvers konar áföll.

Formaður Siðmenntar gefur lítið fyrir þau svör varðandi sálgæslu. „Ég hef efasemdir um að það sé aðgengilegt fyrir fólk í sama umfangi og hin kristilega hjálp,“ segir Inga en hún sendi nýlega fyrirspurn til Landspítalans varðandi sálgæsluþjónustu presta og djákna í ljósi niðurstöðu könnunarinnar.

Til að vera ráðinn til starfa í sálgæslu við Landspítala þarf viðkomandi að hafa að grunni fullgilt háskólanám á mastersstigi til djákna eða prestsþjónustu og hafa þar að auki lokið framhaldssérnámi í sálgæslu á stofnunum eða sambærilegu námi.

Úr skoðanakönnun Siðmenntar sem Maskína framkvæmdi.
Mynd: Maskína

Segja sálgæslu presta ekki sérkristilega

Sjö stöðugildi eru í sálgæslu á Landspítalanum og greiðir spítalinn 6,8 stöðugildi og Þjóðkirkjan eitt. Landspítalinn segir í svari við fyrirspurn Siðmenntar að þjónustan standi öllum til boða, jafnt sjúklingum sem aðstandendum og starfsfólki spítalans, án tillits til lífsskoðana eða trúarafstöðu. Sálgæslan greini þjónustuþega sína ekki eftir trúar- eða lífsskoðunum.

„Ef viðkomandi óskar sértækrar þjónustu, s.s. sakramenta, sem starfsmenn sálgæslu presta og djákna geta ekki veitt, eða ef viðkomandi óskar sérstaklega stuðnings einstaklings af sínum trúararfi þ.m.t. sóknarpresti sínum þá er reynt að milliganga það eftir því sem tök eru á,“ segir í svari Landspítalans.

Landspítalinn segir jafnframt að sálgæsla presta og djákna Landspítala sé ekki sérkristileg sálgæsla, þrátt fyrir að kröfur séu um menntun í sálgæslufræði sem kennd er í guðfræðideild Háskóla Íslands. Inga Auðbjörg bendir á að hægt sé að læra sálgæslufræði utan guðfræðideildar í háskólum víða í Evrópu.

„Mér finnst þetta tímaskekkja og ég tel að það þurfi að afnema þessa menntakröfu. Það ætti að vera opið fyrir aðra til að sækja um þessa stöðu,“ segir Inga.

Inga Auðbjörg, formaður Siðmenntar.
Fréttablaðið/Anton Brink

Fréttin hefur verið uppfærð 2. desember.