„Ég hef verið að mælast inni og úti í þessum könnunum þannig það stefnir í spennandi kosninganótt fyrir mig,“ segir Pawel Bartoszek borgarfulltrúi Viðreisnar en samkvæmt nýjustu niðurstöðum könnunar Prósents sem framkvæmd var fyrir Fréttablaðið fær Viðreisn aðeins einn fulltrúa í borgarstjórn og Pawel myndi samkvæmt þessu ekki halda áfram.
„Við erum eilítið að bæta við okkur frá síðustu könnun Prósents, og ég geri ráð fyrir því að þýðið sé það sama, þannig það er einhver eilítill meðbyr með okkur. En þú finnur ekki stjórnmálamann sem vill ekki fá meira í könnun en hann fær þannig við erum alveg þar,“ segir Pawel og að þau stefni að því að halda hlut Viðreisnar og gott betur.
„En meirihlutinn stendur vel í þessari könnun og öðrum könnunum,“ segir Pawel og að það sér sérstaklega gleðilegt því að umræðan hafi á tímum á kjörtímabilinu verið meirihlutanum mjög óvægin.
Spurður út í kosningaþátttökuna á laugardag og annað sem er að gerast sem geti haft áhrif á hana segir Pawel að hann viti að margir séu að ferðast eða ætli út úr bænum en að það sem hafi líklega mest áhrif er tímasetning kosninganna.
„Þessi tímasetning gerir ungu fólki erfitt að taka þátt. Þetta er í miðjum prófum og það hefur þau áhrif að það hefur verið erfiðara að fá ungt fólk í pólitísku starfi til þátttöku. Þetta er vonlaus tími fyrir þau og ég biðla til ríkisstjórnar og Alþingis að endurskoða þetta því ef þetta verður tímasetningin verður mjög lítið af ungu fólki sem tekur sæti í sveitarstjórnum og það hefur líka þau áhrif að þau munu síður kjósa því færri í þeirra nærumhverfi eru að taka þátt. Það er ástæða til að óttast að þessir þættir geti haft áhrif á kjörsókn,“ segir Pawel en kosningarnar eru um tveimur vikum fyrr en þær hafa síðustu áratugi verið síðustu helgina í maí.