Jódís Skúladóttir, 6. varaforseti Alþingis, sló í tímabjölluna í miðri andsvarsræðu Guðmundar Inga Kristinssonar alþingismanns flokks fólksins í kvöld enda Guðmundur búinn að tala lengi um skatta á fátæka. Nema tími hans var alls ekki búinn.

„Er bara ein mínúta,“ spurði Guðmundur hissa þegar Jódís sló í bjölluna. Úr varð skerandi þögn enda vissu fáir hvað svarið var.

Jódís benti á að það væru tvær mínútur í fyrra andsvari en Guðmundur kannaðist ekki við að vera búinn að tala áður og sagði að þetta væri hans fyrsta andsvar.

„Tæknifólkið er að reyna að leysa úr klukkumálum en þú klárar þinn tíma,“ sagði Jódís og fékk bros úr pontu Alþingis. Guðmundur lofaði að hann væri alveg að verða búinn með sína ræðu sem hann hélt svo áfram - óhindraður.