„Þetta er tímamótadómur og mjög fordæmisgefandi,“ segir Auður Björg Jónsdóttir, lögmaður kaupanda fasteignar í fjölbýlishúsi sem þarf ekki að inna lokagreiðslu íbúðarinnar, eina milljón króna, af hendi vegna galla á íbúðinni. Gallinn er óstýrilátur nágranni sem hefur angrað íbúa hússins um árabil. Dómur var lagður á málið í Hæstarétti í gær og því slegið föstu að samskiptavandi íbúa í fjöleignarhúsi sem ekki er nægilega upplýst um við sölu geti talist til galla á fasteign.

Auður segir umbjóðanda sinn, sem er ung kona, hafa keypt íbúðina 2017 og byrjað að gera hana upp. „Hún verður þá strax fyrir ónæði af þessu fólki og treysti sér ekki til að búa þarna ein. Ég hvatti hana til að leigja íbúðina út en hún vildi ekki setja aðra í þá stöðu sem hún gat ekki sjálf hugsað sér að vera í.“

Samskiptavandanum er lýst í dómi Hæstaréttar en húsið er á þremur hæðum með einni íbúð á hverri hæð. Það er fjölskyldukona á miðhæð hússins sem sögð er rót vandans. Vitnisburðir og önnur gögn bera vott um ótta íbúa hússins við konuna og vísað er til nýlegs dóms héraðsdóms sem sakfelldi konuna fyrir að henda reiðhjóli í bíl annars íbúa húsins og slá hann tvisvar í andlit eftir að viðkomandi færði umrætt hjól til að geta lagt bíl í bílastæði við húsið.

Auður Björg Jónsdóttir, lögmaður.
Fréttablaðið/Anton Brink

Einnig er í dómi Hæstaréttar vísað til vitnisburðar um óvenjulega háttsemi konunnar. Hún hafi skilið eftir sig miða með óskiljanlegum skilaboðum á ýmsum stöðum í húsinu og rifin dagblöð sem á voru ritaðir tölustafir og talnarunur. Hún hafi kastað salernispappír á lóðina, krítað á stéttir við húsið og hrópað ókvæðisorð að öðrum íbúum hússins. Þá hafi lögregla fengið fjölmargar kvartanir vegna nágrannans bæði um eignaspjöll og tilraunir til líkamsárása.

Auður segist gera ráð fyrir því að eigandi íbúðarinnar fari nú að hugsa sér til hreyfings fyrst málinu er lokið. „Það kæmi mér ekki á óvart að hún muni selja, en hún verður að gera það með upplýsingum um þennan galla,“ segir hún en bendir á um hve erfiðan galla sé að ræða. „Ef þú ert með ónýtar lagnir eða leka frá þaki er hægt að gera við það og losna við gallann. Hér getur eigandinn ekki gert það.“

Í dómi Hæstaréttar er því slegið föstu að umfang gallans nemi ekki lægri fjárhæð en þeirri milljón sem haldið var eftir af kaupandanum. Aðspurð um heildarumfang gallans segir Auður að samkvæmt matsgerð sem liggi fyrir seljist eign með svona nágrönnum almennt á fimm til átta prósent lægra verði en ógallaðar eignir. Það er leiðbeiningin sem við höfum og ég tel alveg klárt að hún geti gert fjárkröfu sem nemur mismuninum á þeirri milljón sem búið er að dæma um og þessum fimm til átta prósentum af söluverðinu.