Ef mannfjölgun á Íslandi heldur áfram á sama hraða og undanfarin ár verða Íslendingar orðnir 400 þúsund undir lok næsta árs eða í byrjun árs 2025.
Landsmönnum fjölgaði um 2.570 síðustu þrjá mánuði á nýliðnu ári. Samtals bjuggu 387.800 manns á Íslandi í árslok 2022, þar af voru 199.840 karlar, en 187.840 konur – og munar þar tólf þúsund manns. Þar við bætast 130 landsmenn sem skráðir voru kynsegin/annað í bókum Hagstofunnar.
Um áramót bjuggu 247.590 á höfuðborgarsvæðinu, en 140.210 á landsbyggðinni.
Samkvæmt uppfærðum tölum Hagstofunnar fæddust 1.040 börn á síðasta ársfjórðungi 2022, en 650 einstaklingar létust. Á sama tíma fluttust 2.120 einstaklingar til landsins umfram brottflutta.
Brottfluttir einstaklingar með íslenskt ríkisfang voru 60 umfram aðflutta en aðfluttir erlendir ríkisborgarar voru 2.170 fleiri en þeir sem fluttust frá landinu. Fleiri karlar en konur fluttust frá landinu.