Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, segir tímamismuninn á milli Íslands og Bandaríkjanna ekki lengur talinn í klukkustundum heldur árum eða jafnvel áratugum í kjölfar ákvörðunar Hæstarétt Bandaríkjanna um að takmarka aðgengi kvenna að þungunarrofi.

Hún skrifaði pistil um málið sem birtist í Fréttablaðinu í dag.

„Nú taka einstaka ríki vestanhafs ákvarðanir sem munu breyta tilveru milljóna manna til hins verra og ógna heilsu og öryggi kvenna. Þetta er bakslag í réttindabaráttu fólks, sér í lagi kvenna. Helstu fórnarlömbin verða fátækar konur og konur sem búa við ofbeldi,“ segir Áslaug Arna í pistli sínum.

Að sögn Áslaugar Örnu ríkja átök í Bandaríkjunum um grunngildi þjóðarinnar. „Það sást vel í upphafi árs í fyrra þegar ráðist var á þinghúsið í Washington. Það hefur orðið klofningur milli samfélagshópa, fylkja og innan þjóðarinnar. Það er mikið áhyggjuefni ef sú fylking sem boðar afturhvarf til fortíðar í skálkaskjóli meintrar þjóðernisástar, heldur áfram að komast upp með að skerða sjálfsákvörðunarrétt og frelsi fólks.“

Áslaug Arna segir tímaflakk Bandaríkjanna til fortíðar muni hafa skaðleg áhrif og að samfélagið jafni sig sennilega seint.

„Þótt það megi sín hugsanlega lítils að tjá sig um veruleika kvenna í Bandaríkjunum þá skiptir máli að sitja ekki hjá og láta það óátalið að ríki sem kennir sig við frelsi skuli þrengja svo freklega að réttindum og frelsi þegna sinna,“ segir Áslaug Arna að síðustu.