Upphaf safnsins má rekja til bursta­bæjarins Árbæjar, sem blasir við gestum við komuna í safnið. Býlið stendur enn á sama stað og það hefur gert öldum saman.

„Árbær á sér töluverða sögu sem við erum að lengja talsvert,“ segir Guðbrandur um býlið sem hann segir hafa verið fremur mikið kot, lengst af í konungseigu. „Elstu rituðu heimildir um búsetu í Árbæ ná aftur á 15. öld í tengslum við jarðakaup Ólafar ríku sem kom við í Árbæ, sem þá tilheyrði Viðeyjarklaustri.

Fornleifauppgröftur hefur verið um árabil á Árbæjarsafni þar sem nemendum í fornleifafræði við Háskóla Íslands býðst að æfa sig við að grafa.

„Þessar rannsóknir hafa sýnt að búseta í Árbæ teygir sig mögulega til landnámstímans,“ segir Guðbrandur.

„Þessar rannsóknir hafa sýnt að búseta í Árbæ teygir sig mögulega til landnámstímans."

Búið var í bænum til ársins 1948 þegar hann fór í eyði.

„Um árabil var hann vinsæll áningarstaður á leiðinni til Reykjavíkur því þar var veitingasala. Fólki á ferðinni þótti passlegt að fá sér kaffi og jafnvel gista,“ segir hann í léttum tón.

Reykvíkingafélagið stofnað


Þegar átthagafélag Reykvíkinga, Reykvíkingafélagið, var stofnað um miðbik síðustu aldar barðist það fyrir varðveislu bæjarins sem hluta af sögu sveitalífsins í Reykjavík sem þá var að breytast í borg í kjölfar seinni heimsstyrjaldar.

„Árið 1957 tekur borgin svo við Árbæ, gerir við bæinn og opnar sem safn. Á þeim tíma gengu skipulagshugmyndir mikið út á að gömlu húsin í miðbænum yrðu að víkja fyrir nýjum stórbyggingum og í stað þess að rífa þau öll var ákveðið að varðveita einhver á Árbæjarsafni. Þessum gömlu húsum var þannig bjargað frá eyðileggingu og smám saman þróaðist Árbæjarsafn sem útisafn með Skansinn í Stokkhólmi og fleiri útisöfn í Evrópu að fyrirmynd.“

Safnið samanstendur af um 30 byggingum og mannvirkjum en aðspurður segir Guðbrandur það síðasta hafa komið árið 2005.

„Húsið stóð við Vesturgötu 66B og átti að rífa það enda höfðu verktakar eignast lóðina til að byggja nýbyggingu. Húsið kom til okkar í mjög slæmu ástandi og enn er verið að vinna í viðgerðum innanhúss. Við flýtum okkur hægt í þeim efnum enda kúnst að gera upp gömul hús þannig að vel sé og vandað.“

Guðbrandur segir það ekki á stefnuskránni að taka við fleiri húsum.

„Hús eiga að vera á sínum stað, enda hefur orðið stefnubreyting í hugsunarhætti gagnvart gömlum húsum: þau hafa mikið gildi og eru eitthvað sem á að varðveita eins og hægt er.“

„Hús eiga að vera á sínum stað, enda hefur orðið stefnubreyting í hugsunarhætti gagnvart gömlum húsum: þau hafa mikið gildi og eru eitthvað sem á að varðveita eins og hægt er.“

Á Árbæjarsafni eru leiðsögumenn klæddir í tísku fortíðar sem gefur sterka tilfinningu fyrir andblæ liðinna alda. Fréttablaðið/Anton Brink

Viðamikið rannsóknarstarf


Í tilefni afmælisins segir Guðbrandur ætlunina að vekja athygli á innra starfi safnsins.

„Það verður hægt til dæmis að skoða munageymslurnar þar sem viðkvæmir munir eru geymdir við sérstakar aðstæður.“

Rannsóknarstarf safnsins er viðamikið og felst meðal annars í rannsókn þessara muna en einnig er mikið púður lagt í byggðakannanir.

„Borgin hefur lagt metnað í að stúdera sögur hverfanna svo í kjölfarið sé hægt að taka upplýstar ákvarðanir um þróun þeirra.“ Guðbrandur segist telja safnið eiga sér sess í hjörtum landsmanna og ekki síst borgarbúa.

„Hér hafa börn tækifæri til að leika og hlaupa og sjá margt áhugavert og höfum við lagt áherslu á að safnið sé barnvænt. Við erum með sýningu á leikjum og leikföngum barna í gegnum aldirnar og svo eru hérna húsdýr, eins og áður fyrr.“

Það er augljóst að safnið á einnig stóran sess í hjarta safnstjórans.

„Ég leyfi mér að segja að safnið sé einstakt. Hér gengur þú inn í ákveðna veröld og upplifir fortíðina, nokkurs konar tímahylki.“

Hátíðardagskrá verður í Árbæjarsafni á morgun, sunnudag, frá klukkan 13 til 16. Öll eru velkomin og auðvitað er ókeypis inn í tilefni tímamótanna. n