Ríkis­lög­reglu­stjóri hefur á­kveðið að setja á tíma­bundið bann við flugi dróna/fjar­stýrðra loft­fara á til­teknu svæði, sbr. 4. tl. 12. gr. reglu­gerðar um starf­rækslu fjar­stýrðra loft­fara nr. 990/2017, vegna ráð­herra­fundar Norður­skauts­ráðsins (Arctic Council).

Af þeim sökum verður ó­heimilt að fljúga dróna (fjar­stýrðu loft­fari) innan 500 metra radíus frá Hörpunni, tón­listar- og ráð­stefnu­húsi sem er við austur­bakka Reykja­víkur­hafnar, Grand Hótel Reykja­vík - Sig­túni 28 og Hilton Nor­di­ca Hótel - Suður­lands­braut 2, Reykja­vík. Bannið gildir líka um Sæ­brautina í vestur frá Kringlu­mýrar­braut, strand­lengjuna þar við og 200 metra út á haf frá Sæ­braut, Borgar­tún og Skúla­götu að Hörpu. Sjá nánar á með­fylgjandi korti yfir bann­svæði dróna.

Bannið gildir frá birtingu til­kynningar mánu­daginn 17. maí og til mið­nættis fimmtu­dags­kvöldið 20. maí og er í gildi allan sólar­hringinn þessa daga.

Þá er vakin at­hygli á því að búast má við smá­vægi­legum um­ferðar­töfum mið­svæðis í Reykja­vík meðan á ráð­herra­fundinum stendur, eða frá þriðju­degi til fimmtu­dags. Engum götum verður þó lokað vegna þessa.