Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að það sé kominn tími til að Sjálfstæðisflokkurinn fái til sín umhverfisráðuneytið. Jón var gestur í þættinum Bítið á Bylgjunni í morgun þar sem hann var þráspurður út í gjánna á milli Sjálfstæðisflokksins og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs þegar litið er til mögulegs ríkisstjórnarsamstarfs. Ríkisstjórnin hélt velli í kosningunum um helgina og hafa formenn flokkanna gefið út að þeir muni ræða áframhaldandi stjórnarsamstarf.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, varaformaður Vinstri grænna, gengdi stöðu umhverfisráðherra á síðasta kjörtímabili. Hefur hann verið harðlega gagnrýndur innan raða Sjálfstæðisflokksins, sérstaklega á síðustu metrunum fyrir kosningar.

Jón var spurður hvort hann vildi að Sjálfstæðisflokkurinn fengi umhverfisráðuneytið. Hann sagði þá: „Ég hef sagt það áður, ég tel að það sé tímabært. Ég tel að það þurfi að gera breytingar á stjórnskipaninni, færa verkefni milli ráðuneyta og slíkt,“ sagði Jón. „Sigurður Ingi, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknarflokksins, hefur talað fyrir því að skipulagsmálin eigi að fara inn í sveitarstjórnarráðuneytið.“

Sjálfur hafi Jón talað fyrir því í ráðherratíð sinni. „Það er augljóst að skipulagsmálin og skipulagsstofnun eigi heima þar sem sveitarfélögin eru, sem hafa skipulagsvaldið.“

Það sé nú flokksformannanna að ákveða hvernig móta skuli næstu ríkisstjórn.. „Þau vita hvar hnútinn herðir í þessu. Það verður forvitnilegt að sjá hvernig þessum snillingum tekst að móta leirinn.“