Covid-19-smit greindist í dag hjá inniliggjandi sjúklingi á heila- og taugaskurðdeild B6 í Landspítalanum í dag. Þetta kom fram í tilkynningu frá farsóttanefnd spítalans í kvöld. Vegna smitsins verður lokað fyrir innlagnir á deildinni til morguns.

Samkvæmt tilkynningunni hefur sjúklingurinn verið færður á smitsjúkdómadeild og stofufélagi settur í sóttkví en aðrir sjúklingar settir í úrvinnslusóttkví.

Í yfirstandandi bylgju Covid-faraldursins hafa ítrekað verið slegin met yfir dagfjölda smita á Íslandi. Búist er við því að sóttvarnaraðgerðir verði hertar á ný á næstunni.