Þrír einstaklingar hafa hrapað til bana í fjöllum á Austurlandi síðustu tvo mánuði. Rannsókn slyss sem varð í hlíðum Strandartinds á Seyðisfirði stendur yfir, en erlendur ferðamaður fannst á fimmtudagskvöld látinn í hlíðum Strandartinds.

Fyrr í sumar urðu tvö dauðaslys í fjallamennsku á Austurlandi, við Súlur í Stöðvarfirði og í Fljótshlíð. Þá varð banaslys við klifur í Hvalfirði og fleiri alvarleg slys mætti nefna á fjöllum í sumar. Um ræðir bæði innlent og erlent fjallafólk.

Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn á Austurlandi, telur engin fordæmi fyrir annarri eins fjallaslysahrinu í fjórðungnum. Hann segir að lögregla hafi ekki aðrar skýringar en óhappatilviljanir.

Skúli Júlíusson fjallaleiðsögumaður hefur skrifað bækur um það sem beri að varast í fjallamennsku. Hann vill leggja áherslu á að áhugafólk um útivist leggi ekki til atlögu við of erfið verkefni, heldur byggi upp reynslu sína hægt og sígandi til að mæta auknum áskorunum.

„Ég hef hugsað mikið um þessi mál. Þetta er mjög sorglegt. En það hefur orðið sprenging í fjallamennsku sem og allri útivist og kannski liggja orsakirnar þar,“ segir Skúli.