Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, býst við því að hægt verði að kynna tilslakanir á gildandi samkomutakmörkunum eftir næstu helgi. Hættumat sé í gangi hjá sóttvarnayfirvöldum en hugmyndir um tilslakanir hafi verið ræddar. Þetta sagði Víðir í kvöldfréttum Rúv í kvöld.
Eins og greint var frá í dag er Ísland nú með lægsta nýgengi smita af öllum löndum Evrópu, tæplega 55 á hverja 100 þúsund íbúa á síðustu tveimur vikum. Vel hefur gengið að takast á við faraldurinn hér á síðustu vikum eftir að samkomutakmarkanir voru hertar í 10 manns. Betur gekk þó að ráða niðurlögum fyrri bylgjunnar í vor.
„Þá var miklu minna um svona stór hópsmit eins og við höfum séð núna. Og svo sjáum við undanfarið þessi klasasmit eins og við köllum það þar sem svona sex til tíu manns eru að smitast í tengslum við einhverja eina staðsetningu. Það er miklu meira um svoleiðis,“ segir Víðir.

Vonandi nokkuð eðlileg jól
Núverandi samkomutakmarkanir miða við að 10 manns megi koma saman. Þær gilda til 1. desember, sem er þriðjudagurinn eftir rúma viku. „Það er nú bara ekkert mjög langt í það. Hættumat og annað er í gangi núna til að meta hvað verður til ráða þá og Þórólfur [Guðnason sóttvarnalæknir] mun örugglega vinna það í vikunni. Það þarf að kynna það svona upp úr næstu helgi.“
„Það eru hugmyndir um það að slaka á einhverju og ef þetta heldur svona áfram þá verður hægt að rýmka ýmislegt sem gerir það að verkum að við getum haldið jólin í einhverju skárra formi en við kannski sáum fyrir tveimur vikum síðan.“