Skotar búa sig nú undir að aflétta flestum samkomutakmörkunum og sóttvarnareglum sem enn eru í gildi. Þetta mun fela í sér að fjöldasamkomur innandyra verða leyfðar á ný, leyft verður að opna skemmtistaði á ný og eins metra reglan milli fólks verðu afnumin.
Áætlað er að reglunum verði aflétt frá og með mánudeginum 24. janúar. Breytingarnar hafa verið réttlættar með vísan til lækkandi tíðni nýgreininga í Skotlandi og Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands, hefur tjáð skoska þinginu að hún telji landið hafa sigrast á yfirstandandi bylgju ómíkron-afbrigðis kórónuveirunnar.
Tilteknar reglur verða hins vegar áfram í gildi. Meðal annars verður áfram grímuskylda í almenningssamgöngum og opinberum byggingum, auk þess sem sumum verður gert að vinna heiman frá og taka hraðpróf fyrir samkomur.
„Þótt við höfum ærna ástæðu til að vera æ bjarsýnni að svo búnu verðum við öll að gera okkar besta til að hægja á útbreiðslu veirunnar,“ sagði Sturgeon.