Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, greindi frá því á upplýsingafundi almannavarna í dag að tilslakanir á samkomubanni taki að öllum líkindum gildi um miðja viku. Hann vildi þó ekki greina frá því hvaða tilslakanir hann hafði lagt til í minnisblaði sínu til heilbrigðisráðherra en sagði þær upplýsingar vera væntanlegar á morgun.
„Það það er óhætt að segja að það hafi skapast núna góðar aðstæður til að slaka enn meira á sóttvarnaraðgerðum innanlands,“ sagði Þórólfur.
„Forsendan fyrir því að hægt yrði að slaka verulega á hérna innanlands er í fyrsta lagi að faraldurinn sé í lágmarki og svo hins vegar að við séum búnir að ná nokkuð góðum tökum á á landamærunum.“ Þær aðstæður hafi vissulega myndast hér á landi enda hafa aðeins tvö smit greinst síðustu tíu daga.
Viljum ekki bakslag
Þórólfur sagði samfélagið nú vera að feta sig áfram í afléttingum en þó verði enn að gæta fyllstu varúðar. „Eins og áður þá mun örugglega einhverjum þykja að það sé farið of bratt í afléttingar á meðan öðrum finnst vafalaust allt of hægt farið en ég tel að við getum farið í töluverða tilslakanir núna í ljósi þess árangurs sem við höfum náð erum að gera það varlega.“
Áfram þurfi þó að gæta einstaklingsbundna sóttvarna. „Það er kjarninn í því sem við höfum verið að gera og verður áfram.“ Það sé lykilatriði þess að halda faraldrinum niðri. „Við viljum ekki fá bakslag núna á þessari stundu.“
Minnisblað birt á morgun
Þórólfur sagði tilslakanir væntanlega koma til framkvæmda um miðja viku. „Í tillögunum legg ég til ýmsa tilslakana en eins og áður segir er ég ekki tilbúinn til þess að ræða þær í smáatriðum.“
Heilbrigðisráðherra og stjórnvöld muni sjá til þess að tilkynna nýjar sóttvarnareglur. „Ég geri ráð fyrir því að minnisblaðið verði jafnvel birt á morgun eftir ríkisstjórnarfund.“