Alls mega 20 koma saman í stað tíu þegar ný reglugerð heilbrigðisráðherra um sóttvarnaaðgerðir tekur gildi.

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, kynnti nýjar tilslakanir á samkomutakmörkunum fyrir utan ráðherrabústaðinn í Tjarnargötu í dag að loknum ríkisstjórnarfundi. Þar kom fram að 20 mega koma saman, íþróttastarf barna og annarra verður heimilað á auk þess sem sundlaugar og líkamsrækt opna með leyfi fyrir helmingi gesta.

Sviðslistir opna með 50 á sviði og í sal og krár mega opna til 21 og það verður að rýma fyrir klukkan 22.

Aðgerðirnar taka gildi á miðnætti aðfararnætur fimmtudags og gilda í þrjár vikur með fyrirvara um hægt verði að slaka hægar eða hraðar á miðað við stöðu faraldursins. Svandís greindi frá því að tekið hafði verið tillit til allra ráðlegginga sóttvarnalæknis.

Farið verður í eins meters reglu í skólum aftur.

Þrjú smit í gær

Í dag greindust þrjú innanlandssmit og var enginn þeirra í sóttkví. Þetta er fjölgun frá því í gær þegar aðeins einn greindist með veiruna og var sá í sóttkví við greiningu. Alls greindust þrír yfir síðastliðna helgi. +

Alls eru nú 93 manns í einangrun með virkt smit á landinu samkvæmt covid.is. 147 eru í sóttkví og 1.269 í smitvarnasóttkví.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði í dag á RÚV að tölur dagsins væru áhyggjuefni og að ef smitin yrðu aftur svona á morgun myndi hann mögulega skila inn nýjum tillögum til ráðherra áður en ný reglugerð tekur gildi á föstudag. Ráðherra tilkynnti þó áðan að ný reglugerð taki gildi á fimmtudag. Sjá hér í frétt RÚV.

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, segir ekki útilokað að reglugerðin geti breyst miðað við stöðu faraldursins og tilmæli sóttvarnalæknis.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Taki mið af þriðju bylgju

Þórólfur skilaði ráðherra minnisblaði sínu í gær og var það til umræðu á ríkisstjórnarfundi. Hann sagði í gær að tillögur hans tækju mið af þeim tilslökunum sem tóku gildi við svipaðar aðstæður í þriðju bylgju faraldursins.