Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir tilraunir Demókrata til að ákæra hann fyrir embættisglöp fyrir tengsl hann við óeirðirnar í þinghúsinu í Washington í síðustu viku „fáránlegar“. Hann sagði að ákæruferlið væri að valda „hrikalegri reiði“ meðal þjóðarinnar en að hann vildi ekkert ofbeldi.

Trump talaði við fjölmiðla áður en hann lagði af stað til Texas til að sjá hluta af vegg sem búið er að byggja á milli Bandaríkjanna og Mexíkó.

Fyrsta atkvæðagreiðsla um málið fer fram í fulltrúadeild Bandaríkjaþings á miðvikudag að sögn Demókrata en þar eru þau í meirihluta. Í frétt BBC segir að atkvæðagreiðslan fari fram nema varaforsetinn, Mike Pence, nýti stjórnarskrárvald sitt til að koma honum frá völdum. En það er sögð hugmynd sem hann sé ekki hrifinn af.

Ákall um að Trump verði vikið frá, fjarlægður eða ákærður fyrir embættisglöp hefur verið hátt meðal Demókrata og sumra Repúblikana frá því að óeirðirnar áttu sér stað í síðustu viku. Alls létust fimm í óeirðunum eða í kjölfar þeirra.

Frétt AP News um málið og frétt BBC um málið.