Hver er kveikjan að þessum teikningum og hvernig var vinnuferlið?

„Verkefnið byrjaði sem röð teikninga af tilfinningaflækjum. Það sem upprunalega hófst sem lítið teikniverkefni, óx og vatt upp á sig og eftir því sem teikningunum fjölgaði fór ég að skrifa texta við þær líka. Verkefnið flæddi áfram, tók stjórnina og bók tók á sig mynd. Spenna og togstreita er áberandi í teikningunum. Alls kyns táknmyndir og fyrirbæri berjast um. yfirhöndina en reyna líka að lifa og funkera í góðu jafnvægi.

Í tölfræði eru til dæmis gröf notuð til að setja fram mælanleg fyrirbæri. Það er hins vegar erfitt eða jafnvel ómögulegt að mæla tilfinningar, en þessar teikningar eru hins vegar tilraun til þess. Þær eru eins konar tilfinningagröf.

Textann skrifaði ég hægt og rólega meðfram því að teikna. Þar af leiðandi er textinn og myndefnið nátengt og talar hvort við annað. Textinn lýsir ólíkum stigum flókinnar tilfinningakúrfu. Umfjöllunarefni textans er því þróunarsaga stökkbreyttra flókinna tilfinninga,“ útskýrir Arnar.

Hann á skýra minningu af því þegar hann byrjaði á teikningaröð sinni. „Ég var í togstreitu og fullur tilfinninga sem ég átti erfitt með að lýsa eða færa í orð. Kannski var ég að reyna að teikna þetta hugarástand mitt. Ég efast um að ég hafi náð að fanga það í teikningu en mér líkaði þessi aðferð svo ég hélt áfram að teikna án þess að setja of mikla hugsun eða alvöru í það, ég ákvað að fylgja tilfinningunni fremur áreynslulaust. Teikningarnar urðu 72 talsins og hverri og einni fylgir stuttur texti. Þá fannst mér liggja beint við að gefa út bók.“

Teikningarnar fá líf í klæðnaði, hvernig fæddist sú hugmynd að klæðast teikningunum?

„Pólska listakonan og fatahönnuðurinn Agata Mickiewicz stakk upp á að við myndum sameina krafta okkar og búa til íþróttagalla eða tracksuit úr einni teikningunni. Hún valdi teikningu af snák að sleikja sjálfan sig, kannski svona eins og hann sé að bragða á sér áður en hann ákveður hvort hann vilji borða sjálfan sig.

Cozy Catastrophe - Arnar Ásgeirsson and Agata Mickiewicz.

Agata silkiþrykkti myndina á efni og saumaði nokkrar prótótýpur af íþróttagalla. Rauðar peysur og hvítar buxur. Við fengum mikil viðbrögð við gallanum í útgáfuhófi bókarinnar í Berlín á dögunum svo við ákváðum að gera hópsöfnun og bjóða 20 stykki af gallanum. Hægt er að finna verkefnið inni á Karolinafund undir Ouroboros Tracksuit, Atagata x Arnar Ásgeirsson.“

Þú sýnir fyrst í Þýskalandi og nú á Íslandi, eru sýningarnar að einhverju leyti ólíkar?

Mér var boðið að taka þátt í sýningarverkefninu _in conversation with_ sem þýski sýningarstjórinn Katharina Wendler stendur fyrir. Sýningarverkefnið hennar snýst um að para saman listamann við sýningarstjóra, rithöfund eða annan listamann og búa til sýningu og texta út frá samræðum þeirra.

Hún paraði mig saman við annan sýningarstjóra, Annabelle Von Girsewald og Agötu Mickiewicz, og út frá því settum við saman sýninguna Cozy Catastrophe sem fór fram í Berlín í nóvember. Sýningin var útgáfupartí á bókinni og allar teikningarnar úr bókinni voru til sýnis. Á þeirri sýningu fékk ég til liðs við mig góðkunningja, frænda og samstarfsmann til margra ára, Styrmi Örn Guðmundsson.

Við klæddumst íþróttagöllunum og frömdum gjörning á opnuninni, við sungum mis frumsamin lög og sögðum sögur. Gjörningurinn var eins konar tískusýning og kynning á göllunum. Í Harbinger verður þetta aðeins rólegra, hægt verður að skoða bókina og teikningar úr bókinni og ég verð einn þarna í mínum galla og býð fólki upp á mandarínu eða eitthvað jólalegt.

Teikningar Arnars af snák að sleikja sjálfan sig fá líf í klæðnaði.