Tilraunaverkefnið Frístundir í Breiðholti hefur þegar borið árangur, að sögn Söru Bjargar Sigurðardóttur, varaborgarfulltrúa og formanns íbúa­ráðs Breiðholts.

Frístundastyrkur fyrir börn í fyrsta og öðrum bekk í hverfinu hefur verið hækkaður úr 50.000 í 80.000 krónur í tilraunaskyni en í ljós hafði komið að börn í hverfinu nýttu frístundastyrki verr en börn í öðrum hverfum.

Síðastliðið vor skráðu 69 krakkar sig í frístundastarf sem ekki höfðu verið þátttakendur áður. Í haust komu ábendingar um 112 börn og ungmenni, sem eru nú til meðhöndlunar.

„Það er jákvæð þróun í hverfinu en hún gerist ekki á einni nóttu,“ segir Sara Björg. Markviss kynning hafi orðið á íþrótta- og frístunda­starfi í náinni samvinnu við samtök íbúa af erlendum uppruna. Áskorun sé að ná til breiðs hóps af erlendum uppruna sem býr í Breiðholti en fjölbreyttur félagsauður sé einn helsti styrkur hverfisins.