Innan þriggja ára getum við búist við því að sjá dróna lenda á Strætóum í tilraunskyni til að hlaða sig og komast leiðar sinnar. Þetta segir Daði Ás­laugar­son, yfir­maður upp­lýsinga­tækni­deildar Strætó, en hann vinnur nú á­samt öðrum að ný­sköpunar­verk­efni sem mun auka mögu­leika í dróna­flugi.

Verk­efnið er til þriggja ára og er unnið af fyrir­tækjunum Strætó og Svarmi, gagna­öflunar­fyrir­tæki sem notast aðal­lega við dróna. Það er hluti af Ener­gy ECS verk­efni Evrópu­sam­bandsins þar sem stefnt er að því að tækla ýmis orku­vanda­mál í veg­ferð Evrópu að minnkuðu kol­efnis­fót­spori.

Daði segir eitt mark­mið verk­efnisins vera að nýta Strætó­vagnanna í fleira en að flytja fólk á milli staða. Hægt sé að nota þá til að leysa tvö stærstu vanda­málin við dróna­flug.

Annars vegar er batteríendingin tak­mörkuð og því ekki hægt að fljúga langar leiðir í einu og hins vegar eru á­kveðin svæði sem drónar mega ekki fljúga á, til dæmis ná­lægt flug­völlum. Með því að lenda á vögnunum geta drónarnir bæði hlaðið sig og fengið far fram hjá svæðum þar sem dróna­flug eru bönnuð.

„Þá lengist flug­radíusinn tölu­vert og í rauninni enda­laust ef al­mennings­sam­göngu­netið er nógu stórt,“ segir Daði en sam­kvæmt honum er hægt að nýta dróna í alls­konar verk­efni.

„Þetta er tækni sem er gríðar­legri fram­þróun og drónar verða meira og meira notaðir í ó­trú­legustu verk­efni. Ekki bara að flytja pakka á milli staða heldur líka að at­huga með loft­gæði, skoða um­ferð og við leit og björgun. Það eru milljón verk­efni sem drónar eru að sinna nú þegar,“ segir hann.

Virkar hvar sem er ef það virkar á Ís­landi

Verk­efnið er styrkt af Tækni­þróunar­sjóði og Horizon 2020, ný­sköpunar­sjóði á vegum Evrópu­sam­bandsins sem stefnir að því að auka sam­keppnis­hæfni Evrópu á heims­markaði. Verk­efnið er einnig unnið í sam­starfi við fjölda há­skóla og stofnanna er­lendis.

Fyrstu til­raunir munu eiga sér stað á Ís­landi en síðan færast þær út fyrir land­steinana. „Hug­myndin er of stór til að ein­angrast við Ís­land og ætti að vera hægt að taka upp hvar sem er í heiminum,“ segir Daði.

Hug­myndin spratt upp á Ís­landi, meðal annars frá Daða, en sam­kvæmt honum er Ís­land á­kjósan­legur staður til að prófa tæknina. Annars vegar er landið víð­feðmt og lítið af svæðum sem ekki má fljúga á. Hins vegar er veðrið oft erfitt hér á landi. „Hug­myndin er sú að ef þetta getur virkað á Ís­landi þá getur það virkað hvar sem er,“ segir hann.

Verk­efnið er með nokkra sam­starfs­aðila á Ítalíu sem munu lík­lega byrja að prófa tæknina á næstu þremur árum. Þar er á­hugi fyrir því að nota tæknina til að vakta snjó­flóða­hættu á Alpa­svæðinu, meðal annars.

Það gæti þó liðið lengri tími þangað til að tæknin verður komin á al­mennan markað en það þarf til dæmis að sníða hana að laga­um­hverfinu sem er enn í þróun hvað dróna varðar.