Breska for­sætis­ráð­herranum Boris John­son mistókst nú fyrir skemmstu að fá aukinn meiri­hluta fyrir til­lögu sína um þing­kosningar þann 12. desember næst­komandi, en frá er greint á vef Guar­dian. Fastlega hafði verið gert ráð fyrir því að tillögunni yrði hafnað.

For­sætis­ráð­herrann hefði þurfti 2/3 at­kvæða í neðri deild þingsins, eða stuðning 434 þing­manna af 650. Einungis 299 þing­menn greiddu hins vegar at­kvæði með til­lögunni og 70 voru á móti til­lögunni. Þingið hafði áður gert John­son að sækja um frest og hefur Brexit verið frestað til 31. janúar.

Að því er fram kemur í um­fjöllun Guar­dian er nú búist við því að for­sætis­ráð­herrann muni styðja til­lögu Frjáls­lyndra demó­krata um laga­breytingar svo hægt verði að sam­þykkja nýja tillögu um þingkosningar, en flokkarnir eru hins vegar ekki sam­mála um dag­setningar.

John­son segir að verði þær breytingar sam­þykktar muni hann því næst leggja til frum­varp um kosningar þann 12. desember næst­komandi. Frjáls­lyndir demó­kratar hafa sagst vilja kosningar þann 9. desember. Hann hafði áður­sagt það ó­tækt að þingið „haldi bresku þjóðinni í gíslingu“ með þessum hætti.

Jeremy Cor­byn, leið­togi Verka­manna­flokksins, hefur sagt að flokkur hans gæti einnig stutt til­lögu Frjáls­lyndra demó­krata. Verka­manna­flokkurinn hefur hingað til sagst ekki getað stutt þing­kosningar þar til komið hefur verið í veg fyrir samnings­laust Brexit.