Breska forsætisráðherranum Boris Johnson mistókst nú fyrir skemmstu að fá aukinn meirihluta fyrir tillögu sína um þingkosningar þann 12. desember næstkomandi, en frá er greint á vef Guardian. Fastlega hafði verið gert ráð fyrir því að tillögunni yrði hafnað.
Forsætisráðherrann hefði þurfti 2/3 atkvæða í neðri deild þingsins, eða stuðning 434 þingmanna af 650. Einungis 299 þingmenn greiddu hins vegar atkvæði með tillögunni og 70 voru á móti tillögunni. Þingið hafði áður gert Johnson að sækja um frest og hefur Brexit verið frestað til 31. janúar.
Að því er fram kemur í umfjöllun Guardian er nú búist við því að forsætisráðherrann muni styðja tillögu Frjálslyndra demókrata um lagabreytingar svo hægt verði að samþykkja nýja tillögu um þingkosningar, en flokkarnir eru hins vegar ekki sammála um dagsetningar.
Johnson segir að verði þær breytingar samþykktar muni hann því næst leggja til frumvarp um kosningar þann 12. desember næstkomandi. Frjálslyndir demókratar hafa sagst vilja kosningar þann 9. desember. Hann hafði áðursagt það ótækt að þingið „haldi bresku þjóðinni í gíslingu“ með þessum hætti.
Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, hefur sagt að flokkur hans gæti einnig stutt tillögu Frjálslyndra demókrata. Verkamannaflokkurinn hefur hingað til sagst ekki getað stutt þingkosningar þar til komið hefur verið í veg fyrir samningslaust Brexit.