Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir að persónulegur hugur hennar um aðild að ESB hafi ekki breyst þótt hún leggi áherslu á að andstæðingar ESB eigi skjól í flokknum.
„Ég er ófeimin að segja að ég er í grunninn jafnaðarkona og svo er ég Evrópusinni,“ segir Kristrún. „Ég vil fylkja fólki saman um grunngildi jafnaðarstefnunnar án ásteytingarsteinsins sem aðild að ESB er.“
Kristrún er nýbakaður formaður stjórnmálaflokks sem fyrir nokkrum vikum lagði fram þingsályktunartillögu ásamt Pírötum og Viðreisn um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna við ESB.
Þingmennirnir vilja að þjóðin verði spurð hvort Ísland eigi að taka upp þráðinn í viðræðum við Evrópusambandið með það að markmiði að aðildarsamningur yrði borinn undir þjóðina til samþykktar eða synjunar. Svarmöguleikar yrðu já eða nei.
Þegar Kristrún er spurð hvort hún myndi standa að þingsályktunartillögunni í dag svarar hún:
„Mér finnst þetta ekki vera forgangsmál. Eins og ég hef áður sagt þá er þetta ekki rétti tíminn að mínu mati til að leggja áherslu á málið. Það eru mörg önnur stór og áríðandi verkefni fram undan og það getur ekki allt verið í forgangi. Mitt fyrsta þingmál sneri að velferðar- og húsnæðismálum. Ég tel samt að það sé mikilvægt og gott að þetta sé rætt inni á Alþingi.“
Spurð hvort limirnir dansi eftir höfði formannsins, svarar Kristrún:
„Spurningin snýst um tímasetningu. Mér finnst skipta máli fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu að fyrst hafi farið fram ígrunduð umræða og að önnur mál séu framar í forgangi.“