Dómstólasýslan leggur til að skipaðir verði fleiri dómarar við Landsrétt til að bregðast við þeim vanda sem blasir við réttinum vegna Landsréttarmálsins. Þeim yrði svo fækkað aftur með sólarlagsákvæði í lögum. Þetta kemur fram í bókun sem birt hefur verið á vef Dómstólasýslunnar.

Þar segir meðal annars:

„Nú liggur fyrir sú ákvörðun Mannréttindadómstóls Evrópu að málinu verði vísað til yfirdeildar dómsins. Fyrirsjáanlega mun sú málsmeðferð taka allt að tveimur árum. Mjög brýnt er að brugðist verði við svo Landsréttur geti með viðunandi hætti sinnt hlutverki sínu. Með tilliti til þessa áréttar dómstólasýslan mikilvægi þess að verði fjölgað dómurum við réttinn með sólarlagsákvæði í samræmi við fyrri tillögu dómstólasýslunnar.“

„Við höfum kynnt þessa tillögu fyrir ráðherra og hún er til skoðunar í ráðuneytinu,“ segir Benedikt Bogason formaður stjórnar Dómstólasýslunnar.

Fallist ráðherra á tillögu Dómstólasýslunnar yrði dómurum ekki fjölgað með tímabundinni setningu nýrra dómara heldur yrði farin sama leið og farin var til að bregðast við auknu álagi í Hæstarétti í kjölfar efnahagshrunsins.

„Við teljum mjög óheppilegt að stór hluti dómara við Landsrétt eða allt að þriðjungur sitji í réttinum með tímabundna setningu," segir Benedikt og bætir við: "Vegna grundvallarreglu réttarríkisins um sjálfstæði dómsvaldsins og þar með mikilvægi þess að dómarar njóti sjálfstæðis í störfum sínum er það tillaga okkar að skipuðum dómurum við réttinn verði fjölgað og þeim verði svo fækkað aftur með sólarlagsákvæði, það er með sama hætti og hafður var á í Hæstarétti í kjölfar efnahagshrunsins,“

Árið 2011 var skipuðum dómurum við Hæstarétt fjölgað úr níu í tólf með lagabreytingu og þeim svo fækkað smám saman aftur þegar dró úr álaginu með þeim hætti að ekki var skipað í dómaraembætti sem losnuðu þar til dómaraembættin eru aftur komin niður í lögboðinn fjölda.

Ekki er getið um tiltekinn fjölda dómara í bókuninni en aðspurður segir Benedikt eðlilegt að miðað yrði við fjölgun um fjóra dómara.

Bókun dómstólasýslunnar