Til­laga Vig­dísar Hauks­dóttur, borgar­full­trúa Mið­flokksins, og Kol­brúnar Baldurs­dóttur, borgar­full­trúa Flokks fólksins, um að vísa skýrslu um fram­kvæmdirnar við Naut­hóls­veg 100 til héraðs­sak­sóknara var felld á borgar­stjórnar­fundi nú í kvöld. 

Alls greiddu þrettán borgar­full­trúar at­kvæði gegn til­lögunni en átta með henni. Tveir sátu hjá. 

Vig­dís og Kol­brún lögðu í framhaldinu fram bókun þar sem þær sögðu ill­skiljan­legt að fella til­löguna. „Við berum á­byrgð sem kjörnir full­trúar og eftir­lits­hlut­verk okkar með fjár­reiðum borgarinnar er ríkt. Þessu eftir­lits­hlut­verki erum við að sinna með til­lögu þessari,“ segir meðal annars í bókuninni sem Kol­brún las upp. 

„Þetta mál hefur mis­boðið fjöl­mörgum Reyk­víkingum og lands­mönnum einnig. Meiri­hlutinn hefði átt að taka þessari til­lögu fagnandi og sterkast hefði verið ef hann sjálfur hefði átt frum­kvæðið af til­lögu sem þessari. Þess í stað er brugðist illa við eins og birst hefur á fundi borgar­stjórnar og í fjöl­miðlum.“ 

Hildur Björns­dóttir, borgar­full­trúi Sjálf­stæðis­flokksins, sagði í um­ræðum í dag að hún teldi ekki ráð­legt að ráðast í saka­mála­rann­sókn á þessu stigi máls. „Það er í­þyngjandi að fá réttar­­stöðu sak­­bornings í saka­­máli. Ætlum við að draga starfs­­fólk borgarinnar í gegnum slíkt án þess að hafa ó­­yggjandi sannanir um rétt­­mæti þess? Rann­­sókn málsins hefur ekki náð þeim þroska að slíkar að­­gerðir séu rétt­­mætar eða tíma­bærar,“ sagði Hildur. 

Sjá einnig: „Gætum þess hvaða for­­dæmi við viljum setja í dag“

Þór­dís Lóa Þór­halls­dóttir, odd­viti Við­reisnar og for­maður borgar­ráðs, bókaði að það væri „vand­ræða­legt“ fyrir borgar­full­trúa Flokks fólksins og Mið­flokksins að vera gerðir „aftur­reka með eigin til­lögu“. Þær Kol­brún og Vig­dís hafi reynt að „búa til til­finningu“ um að glæp­sam­legt at­hæfi hafi átt sér stað og þá hafi þær farið af stað með fals­fréttir. 

Borgar­stjórnar­fundur stendur enn yfir en fylgjast má með beinni út­sendingu í spilaranum hér fyrir neðan.