Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti í morgun tillögu Íslands um að framkvæmd verði óháð rannsókn á stöðu mannréttindamála á Filippseyjum.

Atkvæðagreiðsla um tillöguna fór fram á fundi mannréttindaráðsins í Genf í morgun en þar flutti Harald Aspelund, fastafulltrúi Íslands, ávarp þar sem hann mælti fyrir tillögunni.

Alls greiddu 18 atkvæði með samþykkt ályktunarinnar í morgun en 14 gegn. Alls sátu 15 hjá en 47 ríki skipa ráðið. Með samþykkt ályktunarinnar lýsir mannréttindaráðið formlega yfir áhyggjum af ástandinu á Filippseyjum.

Stjórnvöld á Filippseyjum hafa um nokkra hríð sætt harðri gagnrýni fyrir að virða ekki mannréttindi íbúa landsins. Talið er að lögregluyfirvöld á Filippseyjum beri til að mynda ábyrgð á aftökum þúsunda, án dóms og laga, í stríðinu gegn eiturlyfjum og þeirra sem þau selja.

Mannréttindaráðið standi undir nafni

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir að með því að leggja fram þessa ályktun hafi Ísland verið að fylgja eftir fyrra frumkvæði sínu. Það sé afar mikilvægt enda hafi það „sýnt sig að ástand mannréttindamála í Filippseyjum hefur farið stigversnandi“.

„Mannréttindi eru hornsteinn í utanríkisstefnu Íslands og við hétum því þegar við tókum sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna að setja mark okkar á starfsemi ráðsins og láta til okkar taka þar sem þörf er á,“ segir Guðlaugur Þór.

„Ég er ánægður með niðurstöðuna í dag og tel að með samþykkt þessarar ályktunar sé mannréttindaráðið að standa undir nafni sem helsti vettvangur umræðu um mannréttindamál í heiminum,“ segir hann ennfremur.

Harald Aspelund, fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, mælti fyrir tillögunni á fundinum í Genf í morgun.

Filippseyingar gramir vegna málsins

Yfir 30 ríki höfðu lýst yfir stuðningi við tillöguna í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar. Sum þeirra eru þó aðeins með áheyrnarfulltrúa í ráðinu. Auk þess höfðu Amnesty International og Mannréttindavaktin (e. Human Rights Watch), sem hafa ítrekað bent á mannréttindabrot Duterte-stjórnarinnar, lýst yfir stuðningi við tillöguna.

Tillagan gramdist Filippseyjum mjög en sendinefnd á vegum stjórnvalda þar gekk út af fundi nýverið þegar tillagan var rædd á fundi mannréttindaráðsins. Fastafulltrúi Filippseyja gagnrýndi tillöguna mjög í ávarpi í morgun. Hann sagði tillöguna pólitíska og ásakanirnar sem henni fylgdu væri úr lausu lofti gripnar. Hétu þeir því að málinu kæmu til með að fylgja afleiðingar.

Frétt á vef Stjórnarráðsins.