Þingflokksformenn meirihlutans, VG, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks, segja í tilkynningu að frávísunartillaga þeirra sem lögð var fram á fundi umhverfis- og samgöngunefndar hafi ekki verið stuðningstillaga við áframhaldandi setu þingmannsins Bergþórs Ólasonar í nefndinni.

Sjá einnig: Vildu Berg­þór á­­fram að svo stöddu

Í tilkynningu formannanna segir enn fremur að að formennska í umhverfis- og samgöngunefnd sé hluti af samkomulagi milli meirihluta og minnihluta. Samkvæmt því samkomulagi hafi formennska, þar á meðal í umhverfis- og samgöngunefnd, fallið til minnihlutans. Þau segja það á forræði þingflokksformanna ef breyta á samkomulaginu og hafa þannig áhrif á nefndarformennsku.

Í morgun var greint frá því að Bergþór stýrði fundi nefndarinnar þvert á vilja meirihluta nefndar. Berg­þór er for­maður nefndarinnar en Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tók við stöðunni á meðan leyfi hins fyrrnefnda stóð. Frétta­blaðið greindi frá því á föstu­­dag að meiri­hluti nefndarinnar teldi Berg­þóri ekki stætt til áframhaldandi formannssetu eftir það sem á undan hefur gengið.

Sjá einnig: Berg­þór stýrir fundinum þvert á vilja meiri­hluta nefndar

Berg­þór Óla­­son, þing­maður Mið­­flokksins, stýrir fundi um­­hverfis- og sam­­göngu­­nefndar sem hófst klukkan níu í morgun. Þetta herma heimildir Frétta­blaðsins. Þing­­maðurinn sneri aftur á þing í síðustu viku á­­samt flokks­bróður sínum, Gunnari Braga Sveins­­syni, eftir tíma­bundið leyfi frá þing­­störfum vegna Klausturs­­málsins. 

Fréttin hefur verið uppfærð.

Tilkynningin í heild

Vegna fréttaflutnings af fundi umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis

Frávísunartillaga sem var lögð fram á fundi umhverfis- og samgöngunefndar í morgun sneri einungis að því að setja af formann nefndarinnar. Ekki lá fyrir tillaga um nýjan formann. Óvissa var um hvort tillagan væri tæk. Frávísunartillagan var ekki stuðningsyfirlýsing við nefndarformennsku Bergþórs Ólasonar.

Formennska í umhverfis- og samgöngunefnd er hluti af samkomulagi milli meirihluta og minnihluta. Samkvæmt samkomulagi þingflokksformanna í kjölfar þingkosninga 2017 féll formennska í þremur nefndum í skaut stjórnarandstöðuflokka og formennska í fimm nefndum í skaut stjórnarflokkanna. Það er á forræði þingflokksformanna ef breyta á samkomulaginu og hafa þannig áhrif á nefndarformennsku.

Undir þetta skrifa þingflokksformenn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.