Guð­ný Þóra Karls­dóttir til­kynnti í kvöld karl­mann á þrí­tugs­aldri til lög­reglunnar en hún varð vitni að honum að snerta lim sinn í strætó á meðan hann horfði á hana.

Guð­ný Þóra var á heim­leið úr skólanum og segir að hún vilji vara aðra við þessum manni. Hún segir að henni sé ljóst, eftir að hafa rætt at­vikið í hópi á Face­book, að þetta sé al­gengara en flesta gruni.

„Mér finnst að það þurfi að opna þessa um­ræðu betur,“ segir Guð­ný Þóra sem sagði frá at­vikinu í Face­book-hópnum Beautytips eftir að hún kom heim. Hún segir að fjöl­margir hafi haft sam­band við hana í kjöl­farið.

„Svo margir eru búnir að segja mér að þau hafa lent í þessu sama á al­manna­færi,“ segir Guð­ný Þóra.

Hún segir að henni hafi mjög brugðið þegar hún sá manninn en hann hafi starað á bæði hana og aðra stelpu sem var lík­lega um 14 til 15 ára og verið um leið að snerta á sér liminn.

„svo leit ég á hann og hann leit niður og aftur á mig, og þar var hann að glenna typpinu sínu og nudda það,“ segir Guð­ný Þóra í færslunni.

Augljóst að hann var ekki að klóra sér

Hún segir í sam­tali við Frétta­blaðið að maðurinn hafi ekki berað liminn en það hafi verið mjög aug­ljóst að hann hafi ekki verið að „klóra sér“ þótt það sé það fyrsta sem henni datt í hug.

„Þú ert ekki að draga galla­buxurnar til að sýna formið á limnum þegar þú ert að klóra þér. Það er rosa­lega mikill munur,“ segir Guð­ný Þóra.

Hún segir að þegar henni var þetta ljóst þá hafi hún látið vagn­stjórann vita og haldið, miðað við við­brögð hans, að hann ætlaði ekkert að gera í málinu en komst svo síðar í kvöld að því, eftir að hafa talað við for­svars­menn strætó, að hann mis­skildi hana og var að horfa á rangan mann.

„Mig langaði ekki að benda á hann því þetta hefði þá kannski farið verr. Mér hefði þótt það rosa­lega ó­þægi­legt,“ segir Guð­ný Þóra.

Hún segir að hún hafi stuttu seinna farið úr strætó en enn verið með fast í huganum hvað gerðist og verið mjög ótta­slegin.

„Ég vissi að hann hefði ekki farið út en brunaði samt heim og læsti mig inni,“ segir Guð­ný Þóra.

Mikilvægt að bæta kerfin í strætó

Hún segir að hún sé sátt við við­brögð Strætó eftir að hún til­kynnti þeim málið en telur að það sé mikil­vægt að bæta úr öryggis­kerfum strætó og að það séu, til dæmis, mynd­bands­upp­tökur í öllum strætis­vögnum.

„Þannig það sé efni til ef eitt­hvað svona gerist. Ég hugsa bara um hvað hefði gerst ef það hefðu verið börn eða ef ég hefði verið með litlu syst­kini mín eða frænku eða frænda og orðið vitni að þessu. Ég hefði misst mig alveg og var alveg miður mín þegar ég kom heim,“ segir hún.

Hún segir að henni finnist mikil­vægt að það komi fram að allir geti til­kynnt og hafi frelsið til þess.

„Það eru mikil­vægustu skila­boðin sem ég fékk í dag. Það er enginn að fara að setja út á þig. Það hafa allir sína skoðun en það er allt í lagi að segja frá,“ segir Guð­ný Þóra.

Guðmundur Heiðar Helgason er upplýsingafulltrúi Strætó.
Fréttablaðið/Stefán

Eru með málið til skoðunar

Guð­mundur Heiðar Helga­son, upp­lýsinga­full­trúi Strætó, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að málið hafi verið til­kynnt til þeirra og það sé til skoðunar. Hann segist bæði hafa talað við vagn­stjórann og Guð­nýju Þóru og sé með allar þær upp­lýsingar sem þarf.

„Hún gerði alveg rétt og stendur upp og lét vagn­stjórann vita. Hann varð hálf­orð­laus líka og hugsaði hvað hann gæti gert í þessum að­stæðum,“ segir Guð­mundur Heiðar.

Hann segir að við slíkar að­stæður séu nokkur úr­ræði í boði fyrir vagn­stjórana. Það er að stöðva vagninn og opna allar hurðar og biðja ein­stak­linginn að yfir­gefa vagninn en að vagn­stjórinn verði í hvert sinn að lesa að­stæður. Til sé leiðar­vísir fyrir vagn­stjóra fyrir slíkar að­stæður.

„Ef ein­stak­lingurinn verður ekki við því þá er er hægt að kalla til lög­regluna,“ segir Guð­mundur Heiðar og bendir á að í tal­stöð allra vagna sé hnappur sem er bein­tengdur við lög­regluna.

Hann segir að því miður sé vagninn sem um ræðir gamall og því séu ekki til mynd­bands­upp­tökur af at­vikinu.

Hann segir að málið sé til skoðunar hjá strætó og þau skoði hvort að þau til­kynni málið einnig til lög­reglunnar.