Mikill viðbúnaður var hjá sjóbjörgunarsveitum á suðvesturhorninu fyrr í kvöld þegar tilkynning barst um vélarvana skemmtibát sem rak að landi rétt austan Atlagerðistanga við Voga á Vatnsleysuströnd.
Að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg, hafði áhöfn á bátnum rekið mótorinn niður og báturinn orðið vélarvana um 300 til 400 metrum frá landi.
Um hálftíma eftir að útkall barst hafði bátinn rekið að landi og komust áhöfn og farþegar af sjálfsdáðum í land, allir ómeiddir.
Björgunarsveitarfólk á björgunarbát frá Reykjanesbæ mætti á vettvang stuttu síðar og dró bátinn til hafnar í Vogum. Aðgerðir hafi í alla staði gengið vel, þrátt fyrir nokkuð rok og öldugang.