Landhelgisgæslunni bárust um sexleytið í dag nokkrar tilkynningar frá fólki allt frá Akranesi og til Kirkjubæjarklausturs um „hvít ljós á lofti“ sem virtust brenna upp og stefna til jarðar.
Guðmundur Rúnar hjá Landhelgisgæslunni segir í samtali við Fréttablaðið eftir að tilkynningar bárust hafi verið kannað hvort einhverra flugvéla væri saknað auk þess sem skip á svæðinu voru fengin til að svipast um eftir slíkum ljósum.
„Þau staðfestu að þau sáu þessi hvítu ljós,“ segir Guðmundur Rúnar.
Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni fengu þau ekki tilkynningar um ljósin og sáu ekki neitt um þau í sínum athugunum en fengu tilkynningar frá Landhelgisgæslunni um að sést hefði til ljósanna í bæði Vestmannaeyjum og á Akranesi.
Guðmundur Rúnar segir að hugmyndir hafi verið uppi um að steininn tengist loftsteinadrífu sem von er á næstu helgi. Drífan kallast Leonítar og dregur nafn af stjörnumerkinu Leo sem loftsteinarnir virðast komast frá.

Ólíklegt að steininn tengist lofsteinadrífu sem er væntanleg
Að sögn vísindamannsins Þorsteins Sæmundssonar er þó ólíklegt að „ljósin“ sem voru á lofti í kvöld tengist því að nokkru leyti. Fram kemur í svari hans til Fréttablaðsins að drífunnar gæti vart fyrr en þetta stjörnumerki kemur upp, og það sé ekki fyrr en síðla kvölds.
„Þótt Leonítarnir geti verið nokkuð bjartir er sjaldgæft að þeir veki verulega athygli. Skilyrði til að sjá þá í ár eru heldur slæm vegna afstöðu tungls - þeir sjást best á dimmum himni,“ segir Þorsteinn í svari til blaðsins.

Steinar sem verða að vígahnöttum
Sævar Helgi Bragason hjá Stjörnufræðivefnum segir í samtali við Fréttablaðið að líklega hafi verið um loftstein að ræða. Hann tekur undir það sem Þorsteinn segir að ólíklegt sé að loftsteinadrífan næstu helgi hafi nokkuð að gera með ljósin sem sáust í kvöld.
„Það kemur auðvitað fyrir annað slagið að við fáum loftstein yfir lofthjúpinn og þeir geta verið mjög stórir. Stundum eru þeir það stórir og bjartir að þeir verða einskonar vígahnettir sem lýsa allt upp og vekja mikla athygli hjá þeim sem sjá. Það er eflaust það sem gerðist í kvöld. Aðstæður eru góðar og það sést í heiðan himinn,“ segir Sævar Helgi.
Hann segir að erfitt sé að áætla hversu stór hann hafi verið en yfirleitt séu hnettirnir í um 100 kílómetra lofthæð og sjáist því á víðfeðmu svæði.
„Það er því ekkert ólíklegt að fólk sjái stein frá Reykjavík og líka frá Akureyri. Þeir eru það hátt uppi. Þeir ferðast líka mjög hratt. Allt frá ellefu upp í 80 eða 90 kílómetra hraða á sekúndu. Þannig þegar þeir detta í gegnum lofthjúpinn lýsa þeir upp vegna þess að þeir ryðja ljósinu á undan sér og sjást vel,“ segir Sævar Helgi.
Hann segir að yfirleitt séu þeir ekki svo stórir í raun.
„Þeir eru kannski á stærð við steinvölu. En ef þeir eru mjög bjartir þá eru þeir kannski á stærð við jarðarber, golfkúlu eða handbolta og vekja þá mjög mikla athygli,“ segir Sævar Helgi.
Hann segir að það sé alltaf jafn skemmtilegt að sjá slíka steina, þó það sé tilviljanakennt hvenær það gerist.
„Þetta er geimgrjót frá þeim tíma þegar pláneturnar voru að myndast,“ segir Sævar Helgi að lokum.
Nánari lýsingu á leónótum og lofsteinum er að finna á almanaksvef Háskóla Íslands hér og svo hér á Stjörnufræðivefnum.