Það sem af er ári hefur lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu borist um 12 prósent fleiri tilkynningar um heimilisofbeldi en bárust að meðaltali á sama tímabili á árunum 2017-2019. Tilkynningum um heimilisofbeldi fjölgaði smávægilega í október í samanburð við mánuðinn á undan. Þetta kemur meðal annars fram í mánaðarskýrslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir október.

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust 30 tilkynningar um kynferðisbrot sem tilkynnt voru í októbermánuði. Tilkynningum um kynferðisbrot fjölgar miðað við útreiknuð efri mörk fyrir síðustu sex og síðustu 12 mánuði á undan en vert er að taka fram að það sem af er ári hafa borist um 27% færri tilkynningar um kynferðisbrot en bárust að meðaltali á sama tímabili síðastliðin þrjú ár á undan.

Fíkniefna- og ofbeldisbrotum fækkar milli mánaða

Skráðum fíkniefnabrotum fækkaði á milli mánaða og var ekkert stórfellt fíkniefnabrot skráð á höfuðborgarsvæðinu í október. Tilkynningum þar sem ökumaður var grunaður um akstur undir áhrifum ávana-og fíkniefna fækkaði á milli mánaða líkt og tilkynningum þar sem ökumaður var grunaður um ölvun við akstur.

Ofbeldisbrotum fækkaði á milli mánaða. Tilvikum þar sem lögreglumaður var beittur ofbeldi eða hótað um ofbeldi fjölgaði hins vegar á milli mánaða.

Í október voru skráð 709 umferðarlagabrot (að hraðamyndavélum undanskildum) og fækkaði þessum brotum töluvert á milli mánaða. Það sem af er ári hafa verið skráð um 16 prósent færri umferðarlagabrot á höfuðborgarsvæðinu en að meðaltali á sama tíma síðustu þrjú ár á undan. Á sama tíma hefur umferð dregist saman í ár vegna kórónuveirufaraldursins sem kann að skýra færri umferðarlagabrot.