Það sem af er ári hafa um 15 prósent færri til­kynningar borist til lög­reglunnar á höfuð­borgar­svæðinu vegna kyn­ferðis­brota. Í júlí bárust þrettán til­kynningar um kyn­ferðis­brot sem áttu sér stað í mánuðinum.

Þó hafa verið skráð um 15 prósent fleiri kyn­ferðis­brot það sem af er ári en skráð voru að meðal­tali á sama tíma­bili síðast­liðin þrjú ár á undan. Alls voru bárust 33 til­kynningar um kyn­ferðis­brot í júlí, burt­séð frá því hve­nær þau áttu sér stað.

Þetta kemur fram í mánaðar­skýrslu lög­reglu­nnar á höfuð­borgar­svæðinu fyrir júlí 2021. Í skýrslunni eru teknar saman upp­lýsingar um helstu af­brot sem hafa verið til­kynnt til lög­reglu. Fjallað er um þróunina á síðustu 13 mánuðum og tölur það sem af er ári bornar saman við sama tíma­bil síðustu þriggja ára.

Hér má sjá fjölda kyn­ferðis­brota sem áttu sér stað í hverjum mánuði síðast­liðið ár.
Mynd/Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu
Hér má sjá fjölda kyn­­ferðis­brota sem til­kynnt voru í hverjum mánuði síðast­liðið ár, burt­séð frá því hve­nær þau áttu sér stað.
Mynd/Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu

Skráð voru 895 hegningarlagabrot á höfuðborgarsvæðinu í júlí og fækkaði slíkum brotum á milli mánaða. Tilkynningum um þjófnaði fækkaði einnig, sem og um innbrot. Það sem af er ári hafa borist um þrettán prósent fleiri tilkynningar um þjófnað en að meðaltali á sama tímabili síðastliðin þrjú ár á undan.

Skráðar voru 32 til­kynningar um nytja­stuld á vél­knúnum öku­tækjum í júlí. Ekki hafa borist jafn margar til­kynningar um nytja­stuld síðan í ágúst í fyrra.

Til­kynningum um eigna­spjöll fækkaði um 38 milli mánaða en alls voru 138 til­kynningar skráðar í júlí.

Saman­burður á fjölda af­brota við meðal­fjölda brota síðustu sex og tólf mánuði á undan út frá staða­frá­vikum sem gefa vís­bendingu um hve mark­tækar breytingarnar eru.
Mynd/Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu

Þá bárust 111 til­kynningar um of­beldis­brot í júlí, sex færri en í júní. Sjö til­kynningar bárust um til­vik þar sem lög­reglu­maður var beittur of­beldi, einni færri en í júní.

Alls voru skráðar 56 til­kynningar um heimilis­of­beldi í júlí. Það sem af er ári hafa vegar borist um 15 prósent fleiri til­kynningar um slík brot saman­borið við meðal­fjölda sama tíma­bils síðustu þrjú ár á undan.

Þrjú stór­felld vímuefnabrot

Skráðum vímuefna­brotum fjölgaði á milli mánaða en þrjú stór­felld vímuefna­brot voru skráð í júlí. Til­kynningum um grun um akstur undir á­hrifum á­vana-og vímu­efna fækkaði um fimm­tán en til­kynningar þar sem öku­maður var grunaður um ölvun við akstur fjölgaði nokkuð, úr 72 í 89.

Í júlí voru skráð 746 um­ferðar­laga­brot (að hraða­mynda­vélum undan­skildum). Það sem af er ári hafa verið skráð um 26 prósent færri um­ferðar­laga­brot á höfuð­borgar­svæðinu en að meðal­tali á sama tíma síðustu þrjú ár á undan.