Tilkynningum fjölgaði gríðar­lega til barnaverndarnefnda á síðasta ári, eða alls um 15,6 prósent á milli áranna 2019 og 2020. Frá þessu er greint í til­kynningu frá 112. 112-dagurinn er haldinn um allt land í dag og er sjónum að þessu sinni beint að öryggi og vel­ferð barna og ung­menna.

Um er að ræða meiri fjölgun á milli ára en sést hefur undan­farin ár, en á tíma­bilinu 2015 til 2019 fjölgaði til­kynningum um 7,3 prósent að meðal­tali á milli ára. Hlut­falls­lega hefur fjölgunin verið mest vegna of­beldis, en til­kynningum vegna of­beldis fjölgaði um rúm 25 prósent á milli 2019 og 2020. Mest hefur aukningin verið vegna líkam­legs of­beldis annars vegar og til­finninga­legs of­beldis hins vegar og nemur sú aukning 25 til 30 prósent á lands­vísu.

Í til­kynningunni segir að mikil­vægi al­mennings í barna­vernd hafi sér­stak­lega komið í ljós í fyrra þegar við­vera í skólum var minni, í­þrótta­starf­semi í lág­marki og börnin vörðu meiri tíma heima hjá sér.

Árið 2020 fjölgaði til­kynningum frá ættingjum um 44 prósent og frá ná­grönnum fjölgaði þeim um 35 prósent frá því sem var árið 2019. Til­kynningar til barna­númersins 112 voru alls 1.200 talsins í fyrra.

Skila­boð 112 og sam­starfs­aðila 112-dagsins til al­mennings í til­efni dagsins eru að allir viti hvað telst of­beldi gegn börnum og að fólk þekki úr­ræðin sem eru í boði og hiki ekki við að láta vita í 112 ef grunur leikur á að barn sé van­rækt eða beitt of­beldi.

Upp­lýsingar um þetta er að finna á gátt um of­beldi í nánum sam­böndum á 112.is. Þar geta börn og full­orðnir meðal annars átt net­spjall við neyðar­verði um ein­stök mál.

Fé­lags- og barna­mála­ráð­herra flytur á­varp

Í til­efni dagsins efna Neyðar­línan og sam­starfs­aðilar 112-dagsins til at­hafnar sem að þessu sinni fer fram á vefnum. Henni verður streymt á sam­fé­lags­miðlum kl. 12 í dag.

Dag­skrá

  • Á­varp: Ás­mundur Einar Daða­son, fé­lags- og barna­mála­ráð­herra
  • Verð­laun í Eld­varna­get­rauninni 2020 af­hent
  • Skyndi­hjálpar­maður Rauða krossins út­nefndur

Fé­lags- og barna­mála­ráð­herra mun af­henda hópi barna verð­laun fyrir þátt­töku í Eld­varna­get­raun Lands­sam­bands slökkvi­liðs- og sjúkra­flutninga­manna. Hann mun einnig af­henda skyndi­hjálpar­manni ársins viður­kenningu.

Dagurinn í dag markar upp­haf vitundar­vakningar á vegum 112 um of­beldi gegn börnum í tengslum við nýja gátt á 112.is um of­beldi í nánum sam­böndum.

Á­hersla verður lögð á öryggi og vel­ferð barna og ung­menna í febrúar í aug­lýsingum og um­fjöllun í fjöl­miðlum og á sam­fé­lags­miðlum. Vitundar­vakningin fer fram í sam­vinnu við og með stuðningi fé­lags­mála­ráðu­neytisins og dóms­mála­ráðu­neytisins.

Sam­starfs­aðilar 112-dagsins

112-dagurinn er sam­starfs­verk­efni stofnana og fé­laga­sam­taka sem annast marg­vís­lega neyðar­þjónustu, al­manna­varnir og barna­vernd í landinu. Þau eru: 112, Barna­verndar­stofa, Em­bætti land­læknis, Heilsu­gæsla höfuð­borgar­svæðisins, Land­helgis­gæslan, Land­spítalinn, Lands­sam­band slökkvi­liðs- og sjúkra­flutninga­manna, Hús­næðis- og mann­virkja­stofnun, Rauði krossinn, Ríkis­lög­reglu­stjórinn, Slysa­varna­fé­lagið Lands­björg, Slökkvi­lið höfuð­borgar­svæðisins, Vega­gerðin, Æsku­lýðs­vett­vangurinn og sam­starfs­aðilar um allt land.

112 er sam­ræmt neyðar­númer Evrópu og er dagurinn haldinn víða um álfuna til að minna á að að­eins þarf að kunna þetta ein­falda númer til þess að fá að­stoð í neyð. Mark­miðið með 112-deginum er að kynna neyðar­númerið 112 og starf­semi aðilanna sem tengjast því, efla vitund fólks um mikil­vægi þessarar starf­semi og hvernig hún nýtist al­menningi. Mark­mið dagsins er enn fremur að efla sam­stöðu og sam­kennd þeirra sem starfa að for­vörnum, björgun og al­manna­vörnum og undir­strika mikil­vægi sam­starfs þeirra og sam­hæfingar.