Lög­reglunni á lands­vísu bárust til­kynningar um 610 til­vik heimilis­of­beldis eða á­greinings á milli skyldra eða tengdra aðila fyrstu þrjá mánuði ársins, það jafn­gildir um sjö til­kynningum á dag. Um er að ræða 19 prósent aukningu saman­borið við síðustu þrjú ár þar á undan.

Alls voru til­kynnt 176 kyn­ferðis­brot til lög­reglu fyrstu þrjá mánuði þessa árs, eða 6 prósent fleiri brot en voru skráð að meðal­tali síðustu þrjú árin á undan. Hluti brotanna var til­kynntur á tíma­bilinu en hluti átti sér stað fyrr.

Þetta kemur fram í tölfræði sem Embætti ríkislögreglustjóra hefur birt um heimilisofbeldi og kynferðisbrot.

Þegar litið er ein­göngu til heimilis­of­beldis­mála það er til­vika þar sem grunur er um brot á borð við líkams­á­rásir, hótanir eða eigna­spjöll, þá eru til­vikin á­líka mörg og í fyrra, eða 290 talsins. Til­kynningum um heimilis­of­beldi fækkaði á höfuð­borgar­svæðinu á milli ára en fjölgaði á lands­byggðinni.

Flest til­vik heimilis­of­beldis, eða tvö af hverjum þremur málum, eru af hendi maka eða fyrr­verandi maka. Þeim málum þar sem um er að ræða fyrr­verandi maka hefur fækkað milli ára. Í um fjórðungi heimilis­of­beldis­mála er um að ræða fjöl­skyldu­tengsl, svo sem of­beldi á milli barna og for­eldra.

Til­kynningum um nauðganir fjölgaði um fimmtung

Þegar einungis er litið til þeirra kyn­ferðis­brota sem áttu sér stað fyrstu þrjá mánuði ársins þá fækkar þeim um 27 prósent saman­borið við meðal­tal sama tíma­bils síðustu þriggja ára á undan.

Meðal­fjöldi til­kynntra kyn­ferðis­brota til lög­reglu fyrstu þrjá mánuði ársins var um tvö brot á dag.

Sögu­lega hefur lágt hlut­fall kyn­bundins of­beldis, kyn­ferðis­brota og heimilis­of­beldis verið til­kynnt til lög­reglu og oft löngu eftir að brotið átti sér stað.

Íslensk stjórnvöld hafa það markmið að fjölga til­kynningum til lög­reglu um kyn­bundið of­beldi sam­hliða því að vinna að for­vörnum gegn af­brotum. Hefur það m.a. verið gert með vitundar­vakningu á borð við „Er allt í góðu?“ og með aukinni sam­fé­lags­legri um­ræðu um kyn­bundið of­beldi. Með því er vonast til að fleiri brot verða til­kynnt til lög­reglu.