Guð­mundur Karl Snæ­björns­son, læknir, segir til­kynningu Land­læknis­em­bættisins um að em­bættið fylgist nú með far­aldri al­var­legra lungna­sjúk­dóma sem virðist tengdur við notkun á raf­rettum, byggja á rang­færslum og til­kynningu frá banda­rískum heil­brigðis­yfir­völdum sem sé til þess fallin að ala á ótta við raf­rettur.

Eins og Frétta­blaðið greindi frá fyrr í dag sendi em­bættið frá sér til­kynningu í dag þar sem segir meðal annars að vel sé fylgst með á lungna­deild Land­spítalans og sjúk­lingar sér­stak­lega spurðir út í notkun á raf­rettum. Fimm dauðs­föll megi rekja til sjúk­dómsins sem hafi verið stað­festur í jafn mörgum ríkjum.

Guð­mundur bendir á að veikindin megi rekja til kanna­bis­olíu sem fengin sé af svarta­markaði og til­kynningin því hrein­lega sett fram á villandi hátt, slíkt sé í anda CDC stofnunarinnar sem lagt hafi fram upp­runa­legu til­kynninguna.

„Ég held að það megi tala um það mjög skýrt að hún er of ó­ljós, hún er of víð og skapar ó­þarfa ótta hjá fólki sem notar raf­rettur. Þetta skapar al­gjör­lega ó­nauð­syn­legan óróa. Ég get ekki lagt meiri á­herslu á það að það er engin olía í neinum veipi­vökvum,“ segir Guð­mundur í sam­tali við Frétta­blaðið og vísar þar til vökva sem eru til sölu fyrir slíkar raf­rettur hér­lendis.

„Þeir sem hafa verið að fram­leiða þessa vökva sem spjótin beinast að finnast ekki lengur, eru horfnir og farnir undercover. Það segir ansi mikið út af fyrir sig,“ segir Guð­mundur og segir að þannig sé boðskapur tilkynningar Landlæknisembættisins því ekki góður.

„Þeir eru í rauninni bara að segja, farið að reykja. Hættið að nota raf­rettur. Þetta er mjög al­var­legt að mínu mati. Þetta er illa upp­lýst og þeir reyna í rauninni með þessu að espa upp óttann til að stýra fólki þannig. Ekki með réttum upp­lýsingum heldur hræðslu­á­róðri.“

Fólk þurfi ekki að hætta að nota raf­rettur

„Það hafa margir haft sam­band við mig og spurt hvort það eigi að hætta að veipa. Og ég hef heyrt um marga sem hafa hrein­lega hætt. Ef við stýrum fólki með slíkri hræðslu erum við að skaða það frekar en að að­stoða það,“ segir Guð­mundur.Hann segir spurður að fólk þurfi ekki að leggja rafretturnar á hilluna í kjölfar tilkynningar Landlæknis.

„Á Ís­landi hefur reykingar­tíðnin aldrei verið minni og er sú lægsta í heiminum. Reykingar­tíðnin er komin í 3,7 prósent hjá 14-34 ára og þetta þekkist ekki í hinum vestræna heimi,“ segir Guð­mundur. „Svo reykja einungis eitt prósent barna undir átján ára, það er nánast nois í gögnum, sem þýðir að það eru nánast engir. Reykingar hjá börnum hafa bara hrunið.“

„Við verðum að tala skýrar og tala út frá þeirri vit­neskju sem við höfum. Þetta kanna­bis­olíu­efni af svarta­markaðnum og veipivökvar sem boðið er upp á hér eru ekki það sama. Það er gerólíkt og ekki um neinar olíur að ræða í veipivökvum.“