Í dagbók lögreglunnar, þar sem útlistuð eru helstu verkefni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt, er tekið sérstaklega fram að lögregla hafi þurft að hafa afskipti af óvenjumörgum vegna ölvunar og slagsmála.

Eins voru margir ökumenn stoppaðir, grunaðir um ölvun við akstur.

Þá barst mikill fjöldi kvartana um hávaða frá samkvæmum í og við heimahús  en vel gekk í flestum tilfellum að fá fólk til að lækka í sér og virða næturró annarra.

Laust fyrir klukkan sjö í gærkvöld var tilkynnt um hugsanlegan fund á mannabeinum við gröft í garði í Hafnarfirði. Við nánari athugun er talið að um bein úr hundi sé að ræða en ekki mannabein.

Þá barst lögreglu fjöldi tilkynninga um opin eld víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu.

Um hálf áttaleytið var tilkynnt um varðeld í Hafnarfirði. Þegar lögregla mætti á svæðið reyndist það vera aðili að reykja kjöt. Honum var gert að slökkva eldinn.

Þá fékk lögregla símtal um áttaleytið að búið væri að kveikja varðeld í Heiðmörk. Er lögreglu bar að voru um 15 manns við varðeldinn en enginn kannaðist við eldinn. Fólkið sagði að búið hafi verið að kveikja eldinn þegar þau komu á svæðið. Eldurinn var slökktur.

Klukkan hálf tvö í nótt barst lögreglu tilkynning um varðeld í Elliðaárdal. Reyndust það vera ungmenni að fagna próflokum líkt og í Öskjuhlíðinni í gær. Ungmennin fengu föðurlegt tiltal og fræðslu um eldhættu.

Korter yfir tvö var lögreglu gert viðvart um eld nærri Esjumelum. Reyndist eldur í mannlausri bifreið. Engan sakaði og ekki vitað um eldsupptök.

Þá var tilkynnt um annan opin eld í Hafnarfirði laust fyrir klukkan þrjú. Ekki lágu fyrir frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.